Fimmtudagur 15. júní 2000

167. tbl. 4. árg.

Það er áhugaverð greining á stöðu Íslands og annarra Evrópuríkja utan ESB í pistli Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra á heimasíðu hans 12. júní. Björn segir frá því að hann hafi sótt fundi með norrænum mennta- og menningarmálaráðherrum: „Á þessum fundum gafst mér tækifæri til að ræða stöðu Álandseyja innan ESB og hug Álendinga til sambandsins. Dreg ég þá ályktun af þeim samræðum, að ESB-aðildin njóti ekki mikils stuðnings á eyjunum og raunar blöskri almenningi þar að þurfa að standa í öllu því umstangi sem henni fylgir. Hafa Álendingar lent í sérstökum hremmingum vegna þess að ESB er að hlutast til um stórt og smátt og stendur nú til að leiða stjórnvöld eyjanna fyrir Evrópudómstólinn vegna þess að þau fari ekki eftir evrópskum fyrirmælum um baðstrandir. Álendingum var ekki annarra kosta völ en ganga í ESB með Svíum og Finnum, því að annars hefði fótunum verið kippt undan efnahagslífi þeirra.“

Björn segir einnig frá því að hann hafi sagt ítalskri blaðakonu að sér þætti Evrópusambandið orðið of sósíalískt en hún hafi kváð í tvígang og greinilega ekki átt von á slíkri einkunn. Björn er þó ekki einn um að gefa Evrópusambandinu einkunn af þessu tagi. Samkvæmt frétt í Financial Times á sunnudaginn var nýlega haldin ráðstefna um 800 fulltrúa atvinnulífs og embættismanna frá ESB. Blaðið segir að fulltrúar ESB hafi fengið skýr skilaboð um það á fundinum að sambandið væri alltof svifaseint, ákvarðanir væru teknar seint og sambandið setti of mikið af boðum og bönnum. Fulltrúar atvinnulífsins hafa því ekki mikla trú á að sú stefna sem stjórnendur ESB mörkuðu í Lissabon í mars næði fram að ganga og benda á að sífellt halli meira á efnahag ESB landanna gagnvart Bandaríkjunum. En í Lissabon var ákveðið að stefna að því að auka samkeppnishæfni Evrópu. Morris Tabaksblat formaður Evrópusamtaka iðnrekenda sagði að nóg væri komið af fögrum fyrirheitum hjá ESB sem ekki væri staðið við.