Miðvikudagur 14. júní 2000

166. tbl. 4. árg.

Í helgarsproki hér i Vef-Þjóðviljanum á sunnudag var sagt frá hugleiðingum Odds Ólafssonar um það sem má – og ekki má – segja. Sama dag var í grein í Telegraph í Bretlandi sagt frá því að háskóli þar í landi hafi gefið út lista með yfir 40 orðum og frösum sem ekki má segja í skólanum. Meðal þessara vafasömu orða eru „lady“ og „gentleman“, því þau munu vísa til stéttaskiptingar. Orðin „history“, „postman“ og „chairman“ eru óæskileg, því þau vísa til kynferðis að áliti reglusetjara. Nú, svo má auðvitað ekki heldur tala um „normal couple“, því hvernig ætla menn að skilgreina það hvað er venjulegt. Auk þessa er óheimilt að nota orðin „mad“ og „crazy“, því það æsir víst upp þá sem eru við slæma andlega heilsu.

Ef slíkur bannlisti verður gefinn út hér á landi, hvernig væri þá að hann innihéldi orð eins og „tjáningarfrelsi“ og „málfrelsi“? Þau munu þá hvort eð er verða orðin harla merkingarsnauð.

Á næstunni er væntanleg bókin Triumph of Liberty: A 2,000 Year History Told Through the Lives of Freedom’s Greatest Champions eftir Jim Powell. Eins og nafn bókarinnar ber með sér er hér á ferðinni hugmyndasaga sem sögð er með því að segja frá lífi 65 einstaklinga sem lögðu lykkju á leið sína fyrir frelsið. Meðal þessara einstaklinga eru Paine, Locke, Jefferson, Mises, Gladstone, Wallenberg, Erasmus, Goya og Schiller. Komið er við í Rómarríki, sjálfstæðisbaráttu og þrælastríði í Ameríku, borgarastríði í Englandi, frönsku byltingunni, endurreisninni, upplýsingunni, fyrra stríði og Helförinni svo nokkrir viðkomustaðir höfundar séu nefndir. Hér virðist því vera spennandi bók á ferðinni. Formála hennar ritar Paul Johnson en hann ritaði einmitt bókina Intellectuals sem er ekki ósvipuð bók nema að þar er fjallað um líf nokkurra einstaklinga sem höfðu horn í síðu einstaklingsfrelsisins. Bókina er nú þegar hægt að panta hjá netbókabúðunum og verðið er lægra hjá Laissez-Faire bókabúðinni en Amazon. Jim Powell hefur einnig tekið saman ógrynni fróðleiks um frelsið sem mun verða aðgengilegt á nýjum vef á slóðinni www.libertystory.net í næsta mánuði.