Þriðjudagur 13. júní 2000

165. tbl. 4. árg.

„Ríkisútvarpið – þjóðareign í þína þágu“, hljómar þessa dagana í auglýsingatímum Ríkisútvarpsins. Það eru starfsmenn innheimtudeildar Ríkisútvarpsins sem auglýsa og eru með þessu að hvetja menn til að greiða afnotagjöldin með brosi á vör. Þeir greiða þau að vísu ekki sjálfir og brjóta þar með þær reglur sem þeir leggja svo hart að öðrum að fara eftir. Ef að þetta er hins vegar rétt, að Ríkisútvarpið sé í þína þágu, er einkennilegt að það þurfi að neyða þig til að greiða áskriftargjöldin. En starfsmenn innheimtudeildarinnar telja sig auðvitað vita það betur en þú hvað er í þína þágu. En ef til vill er það þetta sem fólst í biskupsins boðskap þegar hann ræddi um að eins gróði væri annars tap. Viðskipti Ríkisútvarpsins við landsmenn eru einmitt þess eðlis. Í venjulegum viðskiptum telja báðir aðilar sig betur setta en áður. Þegar fólk greiðir afnotagjöld RÚV er það ekki vegna þess að það telji það í sína þágu heldur vegna hótana innheimtudeildar RÚV.

Og líklega hefur biskupinn einnig verið að vísa til landafundahátíðar, menningarborgar og kristnihátíðar sem eru viðskipti þar sem eins gróði er vissulega annars tap. Menningarborgin auglýsti jafnvel undir yfirskriftinni: „Þér er boðið – náttúrulega“. Þessi auglýsing var frá starfsmönnum á sérstakri skrifstofu menningarborgarinnar. Og athugið að samkvæmt auglýsingunni voru það þeir, sem eru á kaupi hjá þér, sem bjóða þér – náttúrulega. Þér er boðið og þú borgar – náttúrulega. Alveg eins og með Ríkisútvarpið, það er í þína þágu. Sama hvað þér finnst.