Mánudagur 12. júní 2000

164. tbl. 4. árg.

Þá hefur Thomas Penfield Jackson ákveðið refsingu Microsoft fyrir það að hafa framleitt vinsælan hugbúnað. „Glæpur“ Microsoft á líka að hafa verið sá að vera einokunarfyrirtæki sem hefur í hendi sér að hækka verð til neytenda eins og því lystir. Það mun einnig hafa verið glæpsamlegt af stjórnendum Microsoft að líta ekki á Microsoft netvafrann Internet Explorer sem sérstaka vöru í stað þess að hafa hann innifalinn í stýrikerfinu. Slíkt á nefnilega að hafa komið í veg fyrir að samkeppnisaðilinn Netscape gæti dreift sínum netvafra. Allt þetta á svo að hafa komið neytendum afar illa. Og nú liggur refsingin fyrir; Microsoft skal skipt upp í tvö fyrirtæki, annað skal selja stýrikerfi og hitt tól og tæki tengd vefrápi ásamt öðrum forritum.

Jackson dómari tók það fram við tilkynningu refsingarinnar að hann hefði verið hikandi við þessa ákvörðun. Það er svo í lagi að nefna það hér að áður hafði hann viðurkennt í blaðaviðtali að hann skorti hagfræðilegar forsendur til að leysa úr þessu máli og sökum þess að hann væri ekki hagfræðingur sjálfur og hefði ekki þekkingu til að átta sig á þessum efnum hefði hann þurft að reiða sig á tillögur stjórnvalda í þessum málaferlum. Dómarinn í þessum miklu málaferlum, sem gætu haft afgerandi áhrif á allt viðskiptalíf, hefur sem sagt verið handbendi stjórnvalda og þar með samkeppnisaðila Microsoft.

Ákvörðun dómarans brýtur augljóslega gegn öllum hugmyndum um frjálst hagkerfi og eignarrétt manna. Auk þess að kveða á um skiptingu fyrirtækisins kveður hún í raun á um að Bill Gates sé skipt út fyrir einhvern stjórnvaldssinna, einhvern sem talinn er hafa meira vit á þessum rekstri en Gates. Þannig er kveðið á um rétt og skyldu stjórnvalda til að hlutast til um rekstur þessara fyrirtækja. Stjórnvöldum er gefinn frjáls aðgangur á skrifstofutíma að öllum gögnum fyrirtækjanna. Alla samninga sem fyrirtækin gera þarf að tilkynna og kynna stjórnvöldum á þriggja mánaða fresti. Sérlega andstyggileg eru svo áformin um njósnastarfsemi starfsfólks Microsoft en Jackson dómari hvetur til þess að komið verði upp þægilegu sambandi milli starfsmanna og stjórnvalda svo hinir fyrrnefndu geti tilkynnt stjórnvöldum um hugsanleg brot fyrirtækisins í fullum trúnaði. Menn geta svo velt því fyrir sér hvort þær upplýsingar sem stjórnvöld næla sér í á þennan löglega hátt muni ekki rata í hendur samkeppnisaðila Microsoft, svona með hliðsjón af því að aðal vitni og samstarfsaðilar stjórnvalda í málaferlunum voru einmitt samkeppnisaðilar Microsoft.

Það þarf ekki hagfræðing til að sjá að með ákvörðun Jacksons dómara er verið að þjóðnýta Microsoft. Það þarf heldur ekki lærða menn til þess að spá fyrir um hvernig fer fyrir slíku fyrirtæki. Það dregur úr hæfni þess til að keppa á markaðinum. En það kemur ekki á óvart enda var það markmið stjórnvalda í upphafi. Samkeppnisreglur voru nefnilega settar til höfuðs þeim sem náð höfðu að vinna traust og tiltrú neytenda og til verndar þeim fyrirtækjum sem ekki höfðu náð árangri. Microsoft hefur lækkað verð á hugbúnaði og það hefur fært neytendum áður óþekkta möguleika í tölvuvinnslu. Og það engin glæpur að fyrirtæki ákveði sjálft með hvaða hætti það selur vörur sína.

Þangað til að þessari ákvörðun verður hnekkt af áfrýjunardómstóli (Microsoft hefur tilkynnt um áfrýjun) er það umhugsunarvert fyrir Íslendinga hvort æskilegt hafi verið með lagabreytingu nú á vordögum að fara að ráðum ýmissa íslenskra sósíalista og færa Samkeppnisstofnun meiri völd en hún hafði áður. Það er eitthvað svo ótrúverðugt við þann málflutning að á opinberri stofnun sem þeirri starfi fólk sem er sérstaklega hæft þegar kemur að því að spá fyrir um og segja til um hagkvæmni í ýmiss konar atvinnurekstri.