Helgarsprokið 11. júní 2000

163. tbl. 4. árg.

Þó sjaldnast sé nokkuð úr dagblaðinu Degi-Tímanum að hafa sem nokkurn mann varðar um, var á því undantekning nú um helgina. Í laugardagsblaðið ritar Oddur Ólafsson grein sem að ósekju mætti vekja athygli. Greinin nefnist „Nornaveiðar pólitísks rétttrúnaðar“ og þar er fjallað um tilraunir þrýstihópa til að banna skoðanir og jafnvel orðnotkun sem þeim eru ekki að skapi. Oddur segir að slíkir hópar tíðki það að saka annað fólk einfaldlega um „fordóma“ og þurfi þá ekki aðrar röksemdir til að sanna þeirra mál. Og í nútímanum fái engin rök staðist töfraorðið „fordómar“. 

Í greininni segir Oddur meðal annars: „Pólitísk rétthugsun er komin vel á veg með að útrýma rit- og málfrelsi á Vesturlöndum. Það verður að fara ótrúlega krákustíga um mörg málefni til að gera sig ekki sekan um að móðga einhverja þjóðfélagshópa, kynþætti eða trúariðkendur sem játa aðra trú en kristni. Varðhundar pólitískrar rétthugsunar eru hvarvetna og ætíð reiðubúnir að glefsa í hvern þann sem ekki gætir þess velsæmis sem þeir hafa skapað, og hagar orðum sínum á annan veg en þann, sem fellur að þeirra siðavendni.“

Oddur heldur áfram og nefnir nýlegar umræður sem dæmi: „Nýleg dæmi um pólitíska rétthugsun var að bannfæra alla umræðu um rétt samkynjaðra hjónabanda til að ættleiða börn. Eini kjarkmaðurinn á alþingi, sem þorði að hafa aðra skoðun á málinu en pólitísk rétthugsun leyfir, var ásakaður um fordóma og sagt berum orðum að hann og hans nótar væru sekir um ótímabæran dauða ungmenna. Minna má ekki gagn gera og eftir stendur spurningin, hvar eru fordómarnir í þessu tilviki?“

Og Oddur Ólafsson bætir öðru dæmi við: „Pólitískur rétttrúnaður kærir sjónvarpsstöðina Omega og heimtar að stjórnvöld loki henni. Sakarefnið er að kalla homma og lesbíur kynvillinga og að fetta fingur út í löggildingu sambúðar samkynhneigðra og leyfi þeim til handa að ættleiða og ala upp börn í slíku hjónastandi. Nokkrir kristnir einstaklingar leyfðu sér að ræða þessi mál út frá sínu sjónarhorni og samkvæmt þeim túlkunum sem þeir telja að lesa megi úr ritningunni. Þar sem ekki er liðið að hafa nema eina og rétta skoðun á svona málefnum þykir rétttrúuðum sjálfsagt að loka sjónvarpsstöðinni fyrir fullt og allt.
Óhugnaðurinn í þessu máli er, að enginn málsmetandi maður eða kona finnur hjá sér hvöt eða kjark til að vernda málfrelsi þeirra kristnu manna sem kærumálin beinast gegn. Pólitíski rétttrúnaðurinn er friðhelgur og óumdeilanlegur.“

Þessi síðustu orð mega vera umhugsunarverð fyrir ýmsa þá háfleygu áhugamenn um tjáningarfrelsi sem á undanförnum árum hafa mjög látið til sín taka, af mismiklu tilefni. Og framhald greinar Odds Ólafssonar má alveg verða einhverjum íhugunarefni: „Talsmaður pólitíska rétttrúnaðarins segir í Degi, að umfjöllun sjónvarpsstöðvarinnar sé kukl og múgsefjun og talar um vinnubrögð „hægri sinnaðra kristinna ofstækismanna“. Orðbragðið er sótt í hugmyndasmiðju Ríkisútvarpsins og annarra máttarvalda sem standa vörð um pólitískan rétttrúnað og sjá „hægri sinnað ofstæki“ í orðum og gjörðum allra þeirra sem ekki ganga skilyrðislaust undir þá skoðana- og tjáningarkúgun sem frjáls hugsun á Vesturlöndum er beitt. Búnir eru til alls kyns minnihlutahópar innan samfélaga og á þá má ekki yrða né um þá tala nema með orðalagi og eftir þeim reglum sem rúmast innan þröngs ramma pólitísks rétttrúnaðar.“

Og Oddi þykir pólitíska rétthugsunin „skrýtin skepna og ekki öll þar sem hún er séð“: „Það er ljót karlremba að láta eitthvað sem telja má niðrandi út úr sér um konu eða konur. Hins vegar er ekkert athugavert að úthúða karlpeningnum, einum þeirra eða öllum og bera þeim lýð allar vammir og skammir á brýn. En auðvitað á það aðeins við um hvíta Norðurálfumenn sem taldir eru kristnir. Um blakka karla eða austræna gilda aðrar umgengnisreglur og talsmáti.“

Réttur manna til að hafa og tjá sínar skoðanir, skynsamlegar sem fráleitar, er með mikilvægustu réttindum þeirra. En hann verður lítils virði ef hann nær eingöngu til að halda fram þeim skoðunum sem mest samstaða er um á hverjum stað. Og þar sem tjáningarfrelsið þarf að beygja sig fyrir þeim pólitíska rétttrúnaði sem af umburðarlyndi sínu vill helst banna orðfæri og skoðanir sem ekki túlka „rétt“ gildi, þar er stutt í að önnur réttindi fari fyrir lítið. Eða svo vitnað sé til lokaorða greinar Odds Ólafssonar: „Vafalaust getur pólitíski rétttrúnaðurinn lesið hvaða fordóma sem honum sýnist út úr þessum skrifum og gert höfundi þeirra upp hvaða skoðanir sem honum hentar. Það er þeirra mál. Mergurinn málsins er sá, að atlagan að skoðana- og tjáningarfrelsinu er alvarlegri en svo, að það eigi að láta kyrrt liggja þegar öflugir áróðurshópar eða talsmenn þeirra heimta að fjölmiðill sé lagður niður vegna þess að þeim fellur ekki boðskapur eða orðanotkun þeirra sem þar ráða ríkjum.
Svo ættu þeir sem strá um sig orðaleppum eins og „fordómar“ og „ofstæki“ að líta einstaka sinnum upp undir sjálfa sig og á heiminn í kringum sig og sjá hvar kynþátta- og trúarbragðaofstæki birtist helst í sínum verstu myndum.
Það er þar, sem málfrelsið er bannað.“