Föstudagur 16. júní 2000

168. tbl. 4. árg.

Eins og menn vita þá er vandfundið það svið þar sem hið opinbera treystir sér ekki til að hafa vit fyrir borgurunum og nú kippa fáir sér upp við nýja reglugerð. Flestar eru þær settar án þess að fólk uggi að sér. Hve margir hafa til dæmis heyrt talað um fyrirmæli um byggingarstjóra? Einn þeirra, sem þó hafa gert það, er Sigurður Grétar Guðmundsson. Hann ritaði grein í Morgunblaðið á miðvikudaginn undir fyrirsögninni „Byggingarstjóraskyldan er hrikaleg mistök“.

Í greininni segir Sigurður meðal annars: „Á undanförnum áratugum hefur sá púki sem nefnist reglugerðir verið að tútna og belgjast út, það eru varla sett svo lög á hinu háa Alþingi að ekki séu í þeim ákvæði um að sá ráðherra, sem viðkomandi mál heyra undir, fái […] þann rétt eða skyldu að setja reglugerð um frekari útfærslu laganna. Afleiðingin verður sú að þar fá allir mögulegir og ómögulegir embættismenn að leika lausum hala, já verða oft eins og kýrnar þegar þeim er sleppt fyrst út á vorin, vita ekki hvernig þeir eiga að láta. […] Í reglugerðum fer sá ógeðfelldi púki, forsjárhyggjan, á stjá; sumum finnst svo gaman að geta sett á blað fyrirmæli um hvernig aðrir eiga að haga sér.“

Skýrt dæmi um þetta sé byggingarreglugerð sem sett hafi verið fyrir tæpum tveimur árum. Í þá reglugerð hafi „forsjárhyggjupótentátar“ komið ákvæði sem ekki sé til annars en bölvunar, og sé það ákvæðið um byggingarstjóra. Og vaknar þá spurningin: hver er þessi byggingarstjóri?

Hann er sérstakur „milliliður sem smeygt er á milli iðnmeistaranna, sem bera ábyrgð hver á sinni iðn, og húsbyggjandans.“ Hann getur verið einn af meisturunum, en einnig getur hann verið hönnuður, arkitekt eða – vélstjóri! Nú bera meistararnir ekki lengur ábyrgð gagnvart húsbyggjandanum heldur gagnvart byggingarstjóranum, sem síðan ber ábyrgð gagnvart húsbyggjandanum.

Sigurður Grétar segir að fram til þessa hafi byggingarstjórar verið notaðir þegar þeirra hefði þótt þörf; við stórar og flóknar byggingar hafi þeir jafnan verið kallaðir til. En nú má fólk ekki meta þetta sjálft: „Það var öldungis óþarft og einungis til bölvunar að setja ákvæði um byggingarstjóra inn í byggingarreglugerð, hann starfaði þar sem hans var þörf. En forsjárhyggjumenn sáu sér leik á borði, inn í reglugerðina skyldi það og engin undantekning þar frá. Nú má ekki byggja sólstofu, ekki setja nýjan glugga á hús, ekki byggja hundakofa án þess að byggingarstjóri sé skipaður með þeim kostnaði sem því fylgir. Og húsbyggjandinn borgar brúsann, hver annar?“