Helgarsprokið 28. maí 2000

149. tbl. 4. árg.

Nú í maí kom út skýrsla frá starfshópi Orkuveitu Reykjavíkur sem ber yfirskriftina „Vistvæn samgöngustefna fyrir Reykjavík og nágrenni“. Það brást ekki að fjölmiðlar á borð við Dag vinsuðu nokkur neikvæð atriði úr skýrslunni og gerðu úr þeim stríðsfyrirsagnir á borð við „Kolsvört skýrsla“ og „Hættuleg umferð“. Raunar tók einn skýrsluhöfunda þátt í þessum hræðsluáróðri í sjónvarpsfréttum þar sem hann lét að því liggja að rekja mætti 5-20 tilfelli krabbameina á ári til mengunar frá umferð í Reykjavík. Þeir sem horfðu á þessa sjónvarpfrétt gátu því ekki skilið annað en að þetta væri ein helsta niðurstaða skýrslunnar. Í skýrslunni er þó ekki að finna nein gögn sem styðja þetta mat heldur segir þar: „Miðað við tölur frá norrænum borgum mætti ætla að allt að 5-20 tilfelli krabbameina á Reykjavíkur svæðinu gætu á hverju ári átt rætur að rekja til mengunar frá umferð. Þetta þarf að hafa í huga í umfjöllun um vistvæna samgöngustefnu. Frekari faraldsfræðilegar rannsóknir eru nauðsynlegar til að greina þetta betur.“ Hér er sumsé um hreinar ágiskanir skýrsluhöfunda að ræða. Ekki virðist tekið tillit til þess að Reykjavík er strjálbýl borg og veðurfar með öðrum hætti en í borgum á Norðurlöndunum.

En þessi ágiskun um krabbamein er þó ekki það eina sem skýrsluhöfundar láta flakka án þess að hafa tilefni til þess. Hvað eftir annað er gengið út frá því í skýrslunni að útblástur koltvísýrings C02 frá bílum sé „mengun“ og Íslendingar ætli sér að taka á sig skuldbindingar Kyoto bókunarinnar um útblástur gróðurhúsalofttegunda. Hvergi er minnst á að CO2 er skaðlaus fólki (enda öndum við honum frá okkur, plöntur nýta hann til ljóstillífunar og hann er m.a. að finna í gosdrykkjum). Ekki er heldur útlit fyrir að Íslendingar taki á sig óraunhæfar skuldbindingar Kyoto bókunarinnar að óbreyttu.

Það vekur auðvitað athygli við lestur skýrslunnar að þar er ekki sýnt hver þróunin í styrk úblástursefna hefur verið í andrúmslofti í Reykjavík undanfarin ár. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur látið gera mælingar á þessu frá 1995 og sendi frá sér skýrslu um málið í vetur. Þetta virðist ekki henta skýrsluhöfundum enda sýna þessar mælingar fremur jákvæða þróun. Um skýrsluna mátti lesa hér í Vef-Þjóðviljanum  en í henni kemur m.a. fram að loftmengun frá útblæstri bifreiða (NO2, SO2 og CO) hefur farið heldur minnkandi á árunum 1995-1998. Hvers vegna er ekki minnst á þetta í skýrslu um „vistvæna samgöngustefnu“? Ætti ekki að fagna þessu sem áfanga í vistvænni samgöngustefnu? En það vantar hins vegar ekki að minnst er á styrk ósons í andrúmslofti hér í Reykjavík sem fer að meðaltali sjötta hvern sólarhring lítillega yfir viðmiðunarmörk. Þetta ósón er þó ekki frá umferðinni!

Í skýrslunni um „vistvæna samgöngustefnu“ segir: „Íslensku olíufélögin selja nú díselolíu af staðlinum EN590, sem inniheldur aðeins fjórðung af því magni brennisteins sem var í díselolíu hér fyrir nokkrum árum.“ Á mannamáli þýðir þetta að útblástur brennisteinstvíoxíðs SO2 frá umferð hefur fallið frá því sem áður var þar sem brennisteinn (S) er nauðsynlegur til myndunar SO2. Skýrsluhöfundar minnast þó ekki á þetta heldur sýna töflur í skýrslunni þvert á móti að útblástur SO2 hafi vaxið á árunum 1995-1998. Hvernig getur myndast aukið brennisteinstvíoxíð úr minni brennisteini? Starfshópurinn hefði einnig mátt útskýra það að aukinn útblástur tiltekinna efna þarf ekki að þýða aukinn styrk í andrúmslofti ef viðmiðunarsvæði hefur stækkað. En líklega hentar það ekki ef telja á fólki trú um að útblásturinn valdi krabbameini.

Að lokum má svo geta þess að starfshópurinn kallaði ýmsa í sinn fund til ráðgjafar um hina „vistvænu samgöngustefnu“. Flestir eru nafngreindir en þó hefur gleymst að geta þess hvað fulltrúar frá Íslenskri Nýorku hf. heita. Íslensk Nýorka hf. er ríkisfyrirtæki um notkun á vetni í farartækjum. En ef til vill hefur Þorsteini I. Sigfússyni þótt einkennilegt að geta þess að Þorsteinn I. Sigfússon stjórnarmaður í Nýorku hafi verið Þorsteini I. Sigfússyni í starfshópi um vistvæna samgöngustefnu til ráðgjafar um vetnismál. Ekki síst þegar Þorsteinn I. Sigfússon í starfshópi um „vistvæna samgöngustefnu“ kemst að þeirri niðurstöðu í skýrslunni að framtak Þorsteins I. Sigfússonar í vetnisfélaginu Nýorku sé alveg frábært.