Mánudagur 29. maí 2000

150. tbl. 4. árg.

Þeir sem hyggjast sameina fyrirtæki þurfa að hyggja að ýmsu. Sú var tíð að mestu skipti að reksturinn yrði tryggari eftir sameiningu en fyrir, hægt yrði að minnka sameiginlegan kostnað og auka möguleika fyrirtækjanna. En í upplýstu og faglegu nútímaþjóðfélagi eru þetta ekki þau atriði sem mestu skipta. Nú þurfa menn einnig að fá samþykki Guðmundar Sigurðssonar.

Ef til vill verður einhver hvumsa við því að leita þurfi samþykkis Guðmundar við slíkum áætlunum, man kannski ekki eftir því að hafa kosið Guðmund til sérstakra embætta eða sagt sig á annan hátt í umsjá hans. En honum er engu að síður hollast að reyna að fá samþykki Guðmundar því Guðmundur Sigurðsson er forstöðumaður samkeppnissviðs Samkeppnisstofnunar.

Þar á bæ eru menn yfirleitt tortryggnir ef eigendur fyrirtækja vilja fara að sameina þau í staðinn fyrir að starfa bara áfram hver í sínu horni. Samkeppnisstofnunarmenn hafa þess vegna gjarnan sett allskyns misfurðuleg skilyrði fyrir samþykki sínu fyrir sameiningu „frjálsra“ fyrirtækja. Og nú á dögunum settu þeir ýmis skilyrði fyrir sameiningu Vöku-Helgafells og Máls og menningar.

En ef fyrirtækin hefðu nú ekki reynt að sameinast, hvað þá? Ef þeir höfundar sem hingað til hafa gefið út verk sín á forlagi Vöku-Helgafells hefðu skyndilega allir sem einn ákveðið að skipta við Mál og menningu héðan í frá? Og Auður Laxness hefði ákveðið að fela Máli og menningu útgáfu verka Halldórs Laxness? Ef Vaka-Helgafell hefði misst öll sín umsvif en Mál og menning vaxið að sama skapi, hvað hefði Guðmundur Sigurðsson þá gert? Sett Máli og menningu skilyrði fyrir áframhaldandi starfsemi? Eða fundið sér aðrar vindmyllur?