Laugardagur 27. maí 2000

148. tbl. 4. árg.

Einhverra hluta vegna eru sumir haldnir þeirri firru að helmingur þeirra sem á viðskipti tapi á þeim. Og sumir þessara sumra eru meira að segja búnir að sitja lengi á skólabekk, jafnt í skóla lífsins sem öðrum skólum. Einn þessara sumra sem lengi hafa vermt báða skólabekkina er biskupinn yfir Íslandi, herra Karl Sigurbjörnsson. Herra Karl telur að við lokum augunum fyrir því að enginn geti grætt nema annar tapi. Með öðrum orðum fer annar hver maður með tapi frá hverjum viðskiptum sem eiga sér stað að mati biskups. Herra Karl telur líklega að ef við værum ekki jafn blind eða jafn skyni skroppin og raun ber vitni þá mundum við ekki eiga nein viðskipti hvert við annað, því það er svo sem ekki mikið vit í að eiga í viðskiptum ef maður tapar á þeim.

Þetta er einmitt það sem máli skiptir. Það er ekki mikið vit í viðskiptum ef menn tapa á þeim og þess vegna á fólk ekki viðskipti sín á milli nema hagnast á þeim. Þetta má skýra með einföldu dæmi. Gefum okkur að til sé biskup sem ekki á Biblíuna, en á hins vegar 10.000 krónur í reiðufé. Að biskupi kemur maður sem ekki á neitt reiðufé, en á hins vegar tvær Biblíur. Biskupinn vill ólmur eignast aðra Biblíuna og býður manninum 5.000 krónur fyrir. Maðurinn sér fljótt að hann er betur settur eftir skiptin en fyrir þau, enda telur hann sig lítið hafa við tvær Biblíur að gera en sér í hendi sér fjölmargt sem hann getur gert við 5.000 krónur. Biskupinn er einnig himinlifandi eftir skiptin. Hann getur nú boðað af meiri styrk það sem köllun hans stendur til og þarf ekki að reiða sig á stopult minnið. Báðir eru ákaflega sáttir. Báðir græddu á viðskiptunum.

Þetta er auðvitað bara lítil saga og einfalt dæmi, en sömu lögmál eiga jafnt við um öll önnur viðskipti. Ef maður þiggur fé fyrir bifreið er það aðeins vegna þess að hann telur sig betur settan með það fé sem býðst en bifreiðina. Ef maður skiptir á stórri íbúð fyrir minni íbúð og milligjöf í peningum er það aðeins vegna þess að hann telur sig græða á viðskiptunum. Og svo framvegis. Allir þeir sem taka þátt í viðskiptum gera það vegna þess að þeir telja sig græða á þeim. Án þess hvata, þ.e. gróðavonarinnar, færu ekki nokkur viðskipti fram og allir lifðu í örbirgð á sjálfsþurftarbúskap. Jafnvel sá sem skiptir á 50 króna mynt og súkkulaðikúlu gerir það vegna þess að hann telur sig standa betur að vígi á eftir.

Það hlýtur að vekja furðu að háttsettur embættismaður skuli bjóða upp á slíkan málflutning sem biskup gerði á dögunum. Það er ekki verið að fara fram á mikinn skilning á lögmálum viðskipta- eða efnahagslífsins þó gerð sé krafa um að menn beri slíka vitleysu ekki á borð fyrir almenning. Biskup getur gert margt gott ef hann heldur sig við staðreyndir og flytur þjóðinni skynsamlegan boðskap. Hann getur hins vegar gert jafn margt slæmt ef hann ætlar að halda áfram að bera út misskilning sinn og ala á ranghugmyndum meðal fólks.