Föstudagur 26. maí 2000

147. tbl. 4. árg.

Fréttamenn eru mistækir í vali sínu á viðmælendum. Í gær var til dæmis upplýst um væntanlegt brúðkaup Ólafs Ragnars Grímssonar fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi forseta Íslands og heitmeyjar hans, Dorritar Moussaieff. Og fréttastofa Ríkisútvarpsins leitaði álits sr. Karls Sigurbjörnssonar biskups á málinu!

Eins og menn vita mun frú Moussaieff vera gyðingur og Ólafur Ragnar hefur ítrekað lýst þeirri skoðun sinni að Guð sé ekki til og hann trúi svona einna helst á manninn. Ekki dettur Vefþjóðviljanum í hug að gera athugasemd við það þó menn nýti sér trúfrelsi sitt, hver eftir sinni sannfæringu, en hann skilur bara ekki af hverju oddviti lúthersku kirkjunnar á Íslandi var spurður um þetta mál. Af hverju var ekki talað við rabbína eða mannfræðing?

Annars er hálf einkennilegt hve mjög menn velta sambandi þessa fólks fyrir sér. Sérstaklega þegar litið er til  þess að þeir sem fylktu sér að baki Ólafs Ragnars vegna mannkosta hans og siðferðisstyrks þurfa ekki að hafa áhyggjur af því hverjum eða hverri hann er giftur. Og þar fyrir utan er ekki annað að sjá en konuefni forsetans sé á allan hátt vel til væntanlegrar stöðu sinnar fallið og muni leysa með sóma það hlutverk að vera betri helmingurinn á Bessastöðum.