Fimmtudagur 25. maí 2000

146. tbl. 4. árg.

Á því er klifað að menntun í formi skólagöngu sé arðbær fjárfesting. Þeir sem tönnlast hvað mest á þessu eru þó alfarið andvígir því að einstaklingar meti það hver fyrir sig hve arðvænleg hún er. Þeir vilja heldur að pólitíkusarnir sjái um arðsemismatið og niðurstaða þess sé fyrirfram gefin þ.e jákvæð í öllum tilfellum. Það er vissulega grunsamlegt að svo arðbær fjárfesting skuli þurfa að njóta svo mikilla ríkisstyrkja sem raun ber vitni. Hvers vegna eiga einstaklingarnir sjálfir ekki meta kost og löst á því að leggja fé í hina arðbæru skólagöngu?

Í nýjasta hefti tímaritsins Reason er bent á að munur á tekjum þeirra sem hafa háskólapróf og hinna sem hafa það ekki hafi vaxið mjög undanfarin 20 ár. Árið 1979 voru meðalárstekjur þeirra sem eru með háskólapróf (college graduate) 38% hærri en hinna (high school graduate) en þessi munur var orðinn 76% í fyrra. Menn bæta að meðaltali um 20.000 dölum (1,5 milljónum króna) við árstekjur sínar með því að bæta við sig háskólaprófi. Ef að svipaða sögu er að segja frá Íslandi er ljóst að þeir stjórnmálaflokkar sem ætla sér að „jafna leikinn“ og berjast gegn „misskiptingunni“ hljóta að leggjast gegn því að skólaganga verði á kostnað almennings. Með því að senda almenningi reikninginn fyrir háskólanámi fólks er augljóslega verið að láta alla borga fyrir þá sem bera mest úr býtum. Þeir sem vilja „jafna leikinn“ og draga úr „misskiptingunni“ hljóta því að taka öllum hugmyndum um skólagjöld fagnandi.

Annar ágætur hópur manna sem nú á að fá niðurgreiðslu eru flugfarþegar til og frá Húsavík. Fréttir hafa greint frá því að yfirvöld Húsavíkurkaupstaðar hyggist skylda íbúana í bænum til að greiða fyrir sem nemur einu sæti í flugvélum sem fljúga munu til og frá Húsavík. Með þessu eru Húsvíkingar neyddir til að niðurgreiða ferðakostnað allra sem ferðast flugleiðina til og frá bænum, jafnt Húsvíkinga sjálfra sem annarra. Er þetta réttlát nauðung? Er réttlátt að einn Húsvíkingur sé skikkaður til að niðurgreiða ferðir annars Húsvíkings? Eða er réttlátt að Húsvíkingar séu í sameiningu neyddir til að niðurgreiða ferðir sumra erlendra ferðamanna hér á landi? Þessi yfirvöld nyrðra virðast álíta að svo sé.