Miðvikudagur 24. maí 2000

145. tbl. 4. árg.

Ein af röksemdunum sem heyrst hefur fyrir því að auka vegaframkvæmdir í miðri þenslu er að slíkar framkvæmdir auki í raun ekki verulega á þensluna. Þessar framkvæmdir sé því óhætt að fara út í þrátt fyrir þensluna. Man einhver eftir samdrættinum í efnahagslífinu hér á landi fyrir nokkrum árum? Þá voru rök þeirra sem vildu eyða meiru í óarðbærar vegaframkvæmdir einmitt þau að fjármunirnir sem færu í vegaframkvæmdir væru olía á hjól efnahagslífsins. Eyðsla í göng og vegi mundu hjálpa til við að rífa okkur upp úr efnahagslægðinni. Nú hefur allt snúist við með undraverðum hætti.

Það var hins vegar athyglisvert í þessu sambandi að hlusta á Davíð Oddsson í Silfri Egils um helgina. Davíð sagði að einungis hefði verið að samþykkja vegaáætlun og undirbúning sem gerði mönnum kleift að fara út í þær framkvæmdir sem þar væru nefndar. Ef efnahagsástandið væri óhagstætt þyrfti ekki að fara út í framkvæmdirnar. Það yrði metið þegar þar að kemur. Þetta eru ágæt tíðindi, en þá má spyrja hvort sjónarmiðið sem ríkti fyrir 5-6 árum mun ráða eða það sjónarmið sem oftast heyrist í dag. Hvort verður hætt við framkvæmdirnar í kreppu eða þenslu? Skattgreiðendur geta sjálfsagt gert ráð fyrir að einu gildi hvert ástandið verður. Það verður stutt í kosningar þegar að endanlegri ákvörðun kemur og afar ósennilegt að hægt verði að stöðva þessi áform þó bent verði á að þau væru óskynsamleg.

Það verður æ undarlegra sem dregið er fram til stuðnings sérstökum skattaafslætti sjómanna. Í Morgunblaðinu í gær fer Snorri P. Snorrason vélfræðingur yfir málið og nefnir að sjómannafslátturinn var tekinn upp árið 1967 til að lokka menn á síðutogara við Grænland. Snorri ver svo löngu máli í útskýringar á því hvernig sjómenn og útgerðarmenn hagi kjarasamningum og lætur eins og það sé ekkert eðlilegra en að aðrir landsmenn greiði hærri skatta en sjómenn af því að samningar við útgerðarmenn eru svona og svona. Skattkerfið á með öðrum orðum að sveiflast til og frá eftir því hvernig kaupin gerast hjá sjómönnum og viðsemjendum þeirra. Snorri bendir svo á að sjómenn séu skyldaðir til að greiða afnotagjöld til RÚV þótt þeir séu úti á sjó og þess vegna megi ekki afnema sjómannaafsláttinn! Honum dettur ekki í hug að afnema megi bæði afnotagjaldið og sjómannaafsláttinn enda væri þá ekki hægt að réttlæta aðra delluna með hinni.