Þriðjudagur 23. maí 2000

144. tbl. 4. árg.

Fréttastofa Stöðvar 2 greindi frá því í gærkvöldi að kostnaður við embætti forseta Íslands hefði aukist um tæp 70 % á undanförnum árum. Ekki er gott ef þessar upplýsingar valda því að einhver verður óánægðari með forsetann en áður, þar sem fréttin birtist ekki fyrr en framboðsfrestur til embættisins var runninn út. En óþarfi hefði hvort sem er verið að gagnrýna Ólaf Ragnar fyrir þessa þróun.

Ólafur Ragnar er nefnilega harður á bremsunni í þessum málum. Hann er svo ákafur baráttumaður fyrir aðhaldi og sparsemi að fyrir síðustu forsetakosningar kom hann þessu hugðarefni sérstaklega á framfæri í blaðaviðtali: „Hitt er alveg ljóst að það má ekki haga málum þannig á Bessastöðum að þegar þjóðin líti þangað detti henni helst í hug eyðsla.“

Þannig að það er ekki við Ólaf Ragnar að sakast þó eyðslan vaxi ár frá ári.

Því hefur verið haldið fram að ríkið eigi að grípa inn í starfsemi fjármagnsmarkaðarins nú þegar ávöxtunarkrafa skuldabréfa hefur hækkað og verð þeirra því lækkað. Af fjármálastofnunum eru viðbrögðin sterkust hjá þeim bönkum sem mest höfðu keypt af bréfunum og sjá fram á að tapa fé hækki þau ekki á ný. Þessir bankar eru þó vonandi ekki að óska eftir því að ríkið kaupi þá út úr vandanum eða fái aðra til að gera slíkt. Sumir eru þó þeirrar skoðunar að nú þurfi ef til vill að taka aftur upp handstýringu markaðarins. Páll Pétursson sagði til að mynda í gær að ef ástand á skuldabréfamarkaði batnaði ekki mundi hann tala við verkalýðshreyfinguna um að hún hlutaðist til um kaup lífeyrissjóðanna á skuldabréfum, en í gegnum lífeyrissjóðina getur hún haft mikil áhrif á fjármagnsmarkaðinn.

Páll er þeirrar skoðunar að „samfélagsleg ábyrgð“ verkalýðshreyfingarinnar sé mikil og virðist þessi samfélagslega ábyrgð, sem hann kallar svo, eiga að ráða fjárfestingarstefnu sjóðanna. Aukin fjárfesting lífeyrissjóðanna erlendis er Páli ekki þóknanleg og segir hann að sér finnist að minnsta kosti eðlilegt að þeir sinni íslenskum „fjármagnsmarkaði frekar en að spekúlera í útlöndum.“ Rétt er að minna á að skylda lífeyrissjóðanna og skylda þeirra sem sjóðunum stjórna er ekki við einhverja óskilgreinda „samfélagslega ábyrgð“ verkalýðshreyfingarinnar. Skyldan er sú að ávaxta fé sjóðsfélaga eins vel og kostur er á og þegar verð ríkisskuldabréfa hér heima er orðið of hátt ber þeim að fjárfesta í öðrum bréfum, hvort sem er á Íslandi eða í öðrum löndum. Tal um að verið sé að „spekúlera“ í útlöndum er auk þess furðulegt og lýsir sjónarmiði sem vonandi verður ekki látið hafa áhrif á starfsemi á lífeyrissjóða eða annarra fjárfesta. Það er ekkert frekar verið að „spekúlera“ – með öðrum orðum að stunda svokallaða spákaupmennsku – með fjárfestingum í útlöndum en hér á landi. Væri ekki nær að tala um spákaupmennsku ef lífeyrissjóðirnir færu að kaupa dýr og illseljanleg skuldabréf hér heima í þeirri von að þeir væru með því að stýra verðmyndun á markaðnum og hækka verð bréfanna?