Miðvikudagur 17. maí 2000

138. tbl. 4. árg.

Laxasjóður Norður-Atlantshafs NASF sem Orri Vigfússon fer fyrir hefur ásamt náttúruverndarsamtökum í Wales samið við þarlenda laxveiðimenn menn um kaup á leyfum til reknetaveiða á laxi. NAFS hefur keypt upp laxveiðiréttindi víða við Norður-Atlantshaf á undanförnum árum í þeim tilgangi að vernda villta laxastofna en við það eykst verðmæti laxveiðiáa. Þessi kaup eru dæmi um það hvernig skynsamleg nýting náttúruauðlinda og hagnaðarsjónarmið fara saman.

Þessi frjálsa aðferð verður vafalítið vinsælli með hverju árinu sem líður. Sífellt fleiri hafa atvinnu af því að selja fólki aðgang að óspilltri náttúru. Ekki síst þar sem með vaxandi möguleikum fólks til frístunda mun eftirspurn eftir óspilltri náttúru aukast. Veiðifélög munu ekki síst anna þeirri eftirspurn þótt einhverjum þyki það þverstæðukennt að félög sem gera út á veiði geti um leið verið náttúrverndarfélög. Ferðafélög, skógræktarfélög, fuglaverndarfélög og fleiri munu vinna að sama markmiði undir öðrum formerkjum. Því miður eru ekki allir sem átta sig á því að velmegun flýtir þessari þróun og telja hagvöxt andstæðan náttúruverndarsjónarmiðum. Lýðurinn, sem gerður er út af alþjóðlegum umhverfisverndarsamtökum og kastar grjóti í lögregluna og brýtur rúður hjá McDonalds í hvert sinn sem menn koma saman til að ræða um aukna fríverslun milli landa hefur ekki skilning á þessu. Svipuð sjónarmið koma fram hjá Vinstri hreyfingunni grænu framboði sem hér sem kennir sig af mikilli hógværð við náttúruvernd. Þessi sami hópur kenndi sig áður við alþýðuna.