Fimmtudagur 18. maí 2000

139. tbl. 4. árg.

„Ef Ástþór Magnússon býður sig fram til forseta kostar það ríki og sveitarfélög 40 milljónir króna“ sagði ítrekað í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Einmitt það já, en hvað kostar það ef Ólafur Ragnar Grímsson býður sig fram?

Ekki veit Vefþjóðviljinn hvort þeir tveir menn, Ástþór Magnússon og Ólafur Ragnar Grímsson, sem hafa lýst áhuga á framboði til embættis forseta Íslands nú þegar kjörtímabili núverandi forseta lýkur, láta slag standa. En hitt veit Vefþjóðviljinn að láti þeir báðir verða af því, þá hafa þeir sem frambjóðendur sömu stöðu. Hvorugur er sérstaklega í framboði gegn hinum, hvorugur er einn ábyrgur fyrir tilkostnaði og fyrirhöfn af kosningunum og hvorugur tilvalinn í embættið.

Í Viðskiptablaðinu nú í vikunni er úttekt á efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar. Blaðið fékk svör 29 fjármálasérfræðinga við því til hvaða aðgerða ríkið eigi að grípa gegn þenslunni. Flestir þeirra (yfir 90%) telja að ríkið eigi að draga úr útgjöldum sínum og fjárfestingum. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Sigurður B. Stefánsson framkvæmdastjóri VÍB ríkisstjórnin fái „lága einkunn fyrir stefnuna í ríkisfjármálum til skemmri tíma sem stefni árangri síðustu ára í voða“.

Innan við helmingur fræðinganna telur rétt að hækka skatta á einstaklinga og um fimmtungur að hækka eigi skatta á fyrirtæki. Viðskiptablaðið ber þessa könnun undir Geir H. Haarde núverandi fjármálaráðherra sem segir m.a.: „Hagsmunasamtök sem krefjast skattalækkana fyrir sína skjólstæðinga en gagnrýna ríkisvaldið samhliða fyrir aðhaldsleysi í ríkisfjármálum gera sig sek um tvískinnungshátt“. Þetta er einkennilegt viðhorf hjá ráðherranum þar sem aðhald í ríkisfjármálum og skattalækkanir fara vel saman. Með lækkun útgjalda ríkisins má greiða niður skuldir og lækka skatta.

Fjármálaráðherra segir einnig að staða ríkissjóðs sé sérstaklega sterk. Hér vísar ráðherrann væntanlega til afgangs á ríkissjóði. Þessi afgangur er þó ekki vegna aðhalds Geirs heldur fremur vegna aukinna skatttekna. Þessar auknu tekjur má þakka þeim hagvexti sem hér hefur verið undanfarin ár. Ef að hagvöxtur minnkar en ríkisútgjöldin halda áfram að vaxa með sama hraða og undanfarin ár hverfur afgangurinn á rekstri ríkissjóðs eins og dögg fyrir sólu. Í versnandi efnahagsástandi þarf ríkið auk þess að greiða hærri velferðarbætur (barnabætur og vaxtabætur) og ef atvinnuleysi gerir vart við sig þarf ráðherrann að finna nýja tekjulind fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð en ráðherrann ætlar að tæma þann neyðarsjóð til að fjármagna fæðingarorlof hátekjufólksins nú í miðri þenslunni.