Þriðjudagur 16. maí 2000

137. tbl. 4. árg.

Á Alþingi voru um helgina greidd atkvæði um hin og þessi mál og voru þingmenn önnum kafnir við að leggja landsmönnum lífsreglurnar. Eitt málanna var um það hvort fólki skyldi heimilt að stunda ólympíska hnefaleika á Íslandi. Sumir þingmanna, 27 þeirra nánar tiltekið, virðast hafa skilið þetta sem svo að með samþykkt frumvarpsins yrði mönnum gert að stunda hnefaleika og sáu þeir sig því knúna til að fella það. Reikna má með að ef þingmenn hefðu gert sér grein fyrir að einungis hafði verið gerð tillaga um að leyfa þessa gerð hnefaleika, hefðu þeir samþykkt frumvarpið, enda ekki hægt að ætla mönnum að vilja banna öðrum að stunda þær íþróttir sem þeim þykja áhugaverðar. Næst þegar frumvarpið verður lagt fram þarf því að breyta nafni þess og tala um lögleyfingu í stað lögleiðingar svo þingmenn átti sig á því um hvað málið snýst. Lesendum til fróðleiks og skemmtunar hafa hér verið teknar saman upplýsingar um atkvæðagreiðsluna.

Þegar skoðað er hvernig atkvæði féllu kemur í ljós að einungis um þriðjungur hinna nýju, fersku og nútímalegu jafnaðarmanna í Samfylkingunni greiddi frumvarpinu atkvæði sitt. Og aðeins í einum þingflokki, þ.e. í þingflokki sjálfstæðismanna, var meirihluti fyrir því að leyfa fólki að stunda þessa íþrótt. Jafnframt kemur í ljós – en ekki á óvart – að þingmenn Vinstri grænna eru einhuga um að ekki sé ástæða til að leyfa fólki að stunda þetta sprikl ef það kýs svo. Það hlýtur að vera ánægjulegt fyrir áhugamenn um hnefaleika að vita til þess að með eins atkvæðis meirihluta hafi þeim nú verið bannað að leggja stund á þetta áhugamál sitt. Segja má að meirihlutinn hafi fengið að ráða, en erfiðara er að halda því fram að réttlætið hafi orðið ofaná. Eða hvaða réttlæti er í því að sumir menn banni öðrum að stunda áhugamál sitt?

Margar skemmtisögur eru til af Verðlagseftirliti ríkisins þótt þeim sem litið var til með hafi eflaust ekki verið skemmt á sínum tíma. Arftaki eftirlitsins er hin svonefnda Samkeppnisstofnun sem myndi vafalaust heita Samkeppnisstofa ef henni væri komið á koppinn í dag (eða í nútímanum svo Samfylkingarmenn viti hvað við er átt). Hefur sú stofnun ekki síður þótt haga sér sérkennilega en Verðlagsstofnun. Í fréttum Skjás 1 í gærkvöldi var það til dæmis upplýst að hinn ágæti veitingastaður Bæjarins bestu er með sérstaka undanþágu frá Samkeppnisstofnun en samkæmt samkeppnislögum er bannað að nota efsta stig í atvinnurekstri. Menn mega bara vera góðir eða betri en ekki bestir. Þannig er samkeppnin – segir Samkeppnisstofnun.