Mánudagur 15. maí 2000

136. tbl. 4. árg.

Tæpt ár er frá því Vef-Þjóðviljinn hélt því fram að meta mætti þann samgönguráðherra sem nú gegnir embætti eftir því hvort Kolgrafarfjörður á Snæfellsnesi yrði þveraður. Þar kæmi fram hvort hann mundi einbeita sér að kjördæmapotinu vinsæla eða gæta almennra hagsmuna allra landsmanna. Þverun fjaraðarins kostar hátt í 800 milljónir króna og er margfalt dýrari framkvæmd en að malbika veginn sem liggur fyrir fjörðinn. 2.500 íbúum utarlega á nesinu sparast ekki nema sjö og hálfur kílómetri með framkvæmdinni en kostnaðaraukinn vegna brúarinnar er um 250.000 krónur á mann.
Hefði slíkt staðið til boða, hvort ætli fjögurra manna fjölskylda hefði valið að fá eina milljón króna í reiðufé eða þessa styttingu vegarins til Stykkishólms? Líklegt má telja að flestir tækju milljónina. Hún stendur hins vegar ekki til boða enda væru atkvæðakaupin þá uppi á borðinu en ekki falin í brúnni.

Þverun Kolgrafarfjarðar er ekki eina ámælisverða framkvæmdin sem fyrir liggur í vegamálum. Formaður samgöngunefndar Alþingis segir í grein í Morgunblaðinu í síðustu viku að með níu milljarða króna viðbótarfjármagni til vegamála á næstu fjórum árum sé stigið eitt stærsta skref í vegamálum á Íslandi á lýðveldistímanum. Þetta hljómar nú svo sem nógu vel, en gallinn er sá að þessar framkvæmdir allar hafa alvarlegar afleiðingar. Ætlunin er að nota fé sem ríkinu áskotnast við einkavæðingu til að greiða fyrir þessar framkvæmdir. Hið skynsamlega væri hins vegar að nota þetta fé til að greiða niður skuldir og sýna þannig aðhald í rekstri ríkisins.

Á þetta aðhald skortir mjög í dag og hafa jafn ólíkir aðilar og Seðlabankinn, verkalýðshreyfingin og fjármálafyrirtæki bent á þessa staðreynd. Svar þess sem heldur um ríkiskassann er hins vegar að halda því fram að ríkisfjármálin séu ekki vandamál hér á landi, aðeins einkaaðilar verði að taka sig taki. Verði ekki breyting á þessu viðhorfi mun líklega ekki takast að lækka verðbólguna, minnka vaxtamun, draga úr viðskiptahalla eða yfirleitt að ná þeirri „mjúku lendingu“ sem þó er stefnt að. Og ef ekki er hægt að sýna aðhaldssemi í meðferð ríkisfjár þegar góðæri ríkir og langt er til næstu kosninga, má spyrja hvernig það á að takast þegar aðstæður eru erfiðar?