Grísir gjalda, gömul svín valda, segir máltækið. Og satt er það, oft þurfa saklausir menn að gjalda fyrir það sem aðrir fyrri hafa stuðlað að. Eitt dæmið er skattleysi forseta Íslands. Núverandi forseti hefur undanfarin fjögur ár átt mátt þola það svínarí að vera undanþeginn sköttum og skyldum þrátt fyrir að vera sjálfur þeirrar skoðunar að allir eigi að borga sem hæsta skatta. Hefur honum sviðið þetta mjög og þegar hann hefur fengið launaseðlana í hendur hefur hann eflaust hugsað eins og hin brottrekna drottning Gríshildur góða, sem þjóðsögur Jóns Árnasonar segja frá: „Sárt brenna gómarnir, en sárara brennur hjartað.“ En nú hafa menn sem betur fer tekið höndum saman um að breyta þessu.
En ekki allir. Andstæðingar forsetans á þingi hafa reynt að svína á honum og bregða fæti fyrir frumvarp um þetta efni. Ekki hafa þeir þó velt sér svo mjög um stíuna að segja að með því að láta þetta eftir forsetanum væri verið að kasta perlum fyrir svín. Þess í stað hafa þeir reynt að bera formsatriði fyrir sig, en í þeim málflutningi þeirra hefur ekki verið feitan gölt að flá. Að sumu leyti er skiljanlegt að þeir hafi ekki þorað að ráðast beint að forsetanum í þessu máli, þeir vita að hann á marga vini og velunnara og grenja myndi grís ef gölturinn er drepinn, eins og sagt er.
Reyndar hefur ýmsa undrað að sú fylking, sem stofnuð er úr hlutum þeirra flokka sem áður kenndu sig við jöfnuð og alþýðu, skuli nú vilja standa vörð um forréttindi æðsta embættismanns landsins. Má vera að þar sannist hið gamla spakmæli að oft verði ungur grís gamall göltur. Og þar sem sagan segir að fyrri sé grís en gamalt svín er ef til vill ekki að undra að þeir sem nú hafa lagst gegn áðurnefndum umbótatillögum, hafi fyrr á ferli sínum verið ákafir andstæðingar forréttinda yfirstéttarmanna. Þá er ekki útilokað að nálægð við vald og kjötkatla hafi breytt skoðunum fylkingarmanna að þessu leyti, því hvað segir ekki máltækið: grís fór yfir Rín, kom aftur svín.
Ekki er útilokað að óvinir forseta vilji niðurlægja hann með því að láta hann þiggja forréttindi sem þessi og geta svo bent á þau til marks um fégirnd hans. En slíkt hefur jafnan þótt lítill sómi. Snorra-Edda segir til dæmis frá konungi er nefndist Hrólfur kraki sem komist hafði yfir gullhring mikinn sem kallaður var Svíagrís. Eitt sinn fór óvinur hans, Aðils konungur, sá er áður hafði rænt hjálminum Hildisvíni, að honum með miklu liði og kastaði Hrólfur þá frá sér gulli miklu í þeirri von að óvinirnir létu sér það nægja. Þegar það bar ekki tilætlaðan árangur kastaði hann einnig frá sér gullhringnum Svíagrís. Stöðvaði Aðils þá hest sinn og tók upp hringinn. Sá Hrólfur þá að ágirndin hafði stöðvað konung og mælti: „Svínbeygt hef ég nú þann sem ríkastur er með Svíum.“
Þannig geta ýmsar ástæður verið fyrir því að menn vilja ekki láta það eftir forsetanum að hann fái að greiða skatta. Undarleg er hins vegar sú skammsýni manna sem á þann hátt opinbera illsku sína í garð þess forseta sem elskaður er af öllum góðum mönnum. En sumir ráða bara ekki við sig og, eins og menn segja, þá er gömul saga og ný að sjö sinnum brennir svín sig á sama soði. Og þó slíkir menn lofi bót og betrun þá er allt eins víst að þeir muni aftur síðar sitja um að gera forsetanum óleik. Þvegið svín veltir sér í sama saur og líklega er það satt sem sagt er, að seint mun svín að sólinni gá. Aðeins er furðulegt hve margir fylkingarmenn tóku þátt í að hindra þetta ágæta umbótafrumvarp, en er það víst bara gamla sagan, að þegar eitt svínið rýtir rýta þau öll. Svo má vera að einhverjir telji þessa andstöðu vera líklega til vinsælda. Á saurnum verða svínin feitust segir máltækið en vonandi er það ekkert slíkt sem vakir fyrir mönnum. En hver veit hvað hver og einn hefur í huga. Er það líklega eins og sagt er, að dreymir svín um draf og kerlingu um sinn krókstaf.
Ekki verður fullyrt að allir þeir sem lagst hafa gegn framgangi frumvarpsins um afnám þessara forréttinda geri það af heift í garð núverandi forseta. Þvert á móti munu í þeim hópi vera menn sem dýrka forsetann svo mjög að líklega jafnast ekkert á við það, nema ef til vill sú ofurást sem ungfrú Svínka lagði á Kermit frosk. Hefur sá kærleikur staðið um svo margra ára skeið að ljóst er að þar er varanlegt samband á ferðinni en ekki bara skammvinn sumarást eins og til dæmis var fjallað um í hinni skemmtilegu mynd Grease sem sýnd var hér fyrir nokkrum árum og ýmsir sáu. En því verður ekki neitað að margir óttast að öfundin stýri ýmsum. Forsetinn er alþýðlegur maður sem kann að blanda geði við almúgann, eins og sást best á því að hans fyrsta verk eftir að hann tók við embætti fyrir fjórum árum, var að gleðjast með almenningi á bindindismótinu í Galtalækjarskógi og þótt hann hafi vegna anna ekki komið því við að sækja slíkar hátíðir síðan, þá er hugur hans jafnan hjá íslensku almúgafólki. Þetta og margt annað í fari hins ástsæla forseta hafa andstæðingar hans átt erfitt með að þola og þess vegna vilja ýmsir þeirra halda honum í fjarlægð frá almenningi með því að láta um hann gilda sérstakar skattareglur. En slíkar sérreglur eru sem betur fer á undanhaldi. Mikilvægt er að allir séu jafnir fyrir lögum eins og meðal annars má lesa úr nýföllnum dómi í málinu Stjörnugrís ehf. gegn íslenska ríkinu.
En öfund er það sem fylgir frægð og hæfileikum. Það eru ekki bara glæsilegir stjórnmálamenn sem mega þola það. Flestir þeir sem skera sig úr fjöldanum sitja undir öfundarmönnum og öðrum hvimleiðum fylgifiskum frægðarinnar. Alþjóðlegir tónlistarmenn og einkum kvikmyndaleikarar hafa mjög kvartað undan þessu og einn þeirra sagði á dögunum að frægðin hefði meiri galla en kosti. Ekki skal fullyrt hver lét þau orð falla, gott ef það var ekki fremsti leikari samtímans, Kevin Bacon.
En yfir í allt aðra sálma. Í dag á afmæli forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Vef-Þjóðviljinn óskar honum allra heilla á þessum merkisdegi. |