Laugardagur 13. maí 2000

134. tbl. 4. árg.

„Það hefur alltaf þótt gott að skulda hér á landi. Á verðbólgutímanum var lánsfé eðlilega eftirsótt þar sem skuldirnar hurfu í verðbólgubálið og menn þurftu helst að þekkja mann eða að minnsta kosti mann sem þekkti mann til að fá lán. Eftir sátu sparifjáreigendur með sárt ennið. En er þessi tími að baki þar sem sparsömu fólki er refsað og skuldaliðið verðlaunað? Því fer fjarri. Með vaxtabótakerfinu er fólk hvatt til þess að skulda sem mest því þannig getur það hækkað vaxtabæturnar. Því hærri skuldir þeim mun hærri vaxtabætur. Og ekki nóg með að fólki sé refsað fyrir ráðdeildarsemi. Fólki er einnig refsað fyrir að vinna því vaxtabæturnar skerðast um 6 krónur fyrir hverjar 100 krónur sem menn vinna sér inn.“, sagði í Vef-Þjóðviljanum 6. mars 1998.

Vaxtabótakerfið er raunar þeim einstöku eiginleikum gætt að það er fráleitt fyrir fólk að setja meira af sparifé sínu í íbúðarkaup en ýtrasta nauðsyn krefur. Yfirleitt þurfa menn að eiga 10-30% af íbúðarverði til að geta keypt íbúðina. Eigi menn þess hins vegar kost að taka frekar lán en leggja fram eigið fé er sjálfsagt að gera það. Allur viðbótar vaxtakostnaður fæst nefnilega í mörgum tilfellum endurgreiddur að fullu með vaxtabótunum, nema menn hafi þeim mun hærri tekjur eða eigi of miklar eignir. Óþarfa lánið er því í raun vaxtalaust en á sama tíma er spariféð sem ekki var notað í íbúðarkaupin á fullum vöxtum. Þegar menn hætta svo að fá vaxtabætur seinna vegna mikilla tekna eða eigna má einfaldlega greiða þetta vaxtalausa lán með sparifénu sem var á vöxtum allan tíman og hirða mismuninn.

Einfalt dæmi sýnir þetta:

Einstaklingur á 1.000.000 krónur sem hann getur annaðhvort sett í íbúðarkaup eða sett milljónina í ávöxtun í 10 ár og tekið viðbótalán til íbúðarkaupanna, en þá verða eignir hans orðnar það miklar að hann fær ekki vaxtabætur lengur.

1. Ef hann setur hana í íbúðarkaupin liggur hún vaxtalaus í steinsteypunni í 10 ár. Hann þarf þá ekki að greiða afborganir af þessari milljón og getur ávaxtað samsvarandi upphæð. Ef lánið er til 25-35 ára fær hann 150-200 þúsund krónur í vaxtatekjur af þessari upphæð miðað við 8% vexti í 10 ár.

2. Ef hann tekur hins vegar 1 milljón í viðbót að láni til húsnæðiskaupanna fær hann alla vexti sem hann greiðir af því láni næstu 10 árin endurgreidda sem vaxtabætur. Milljónina ávaxtar hann hins vegar um 8% á ári í 10 ár er hún þá orðin að 2.158.000 krónum.

Mismunurinn er því um 1 milljón króna – sem skattgreiðendur verðlauna þann með sem tekur seinni kostinn fram yfir hinn fyrri. Þ.e. þá sem taka lán fremur en að nota eigin sparnað.