Föstudagur 21. apríl 2000

112. tbl. 4. árg.

Í gær opnaði svokallað Þjóðmenningarhús, en það var áður kallað Safnahús eða bara Landsbókasafn. Húsið á sér langa sögu og hafa margir Íslendingar unað sér þar við óeigingjarna iðju á borð við bóklestur og fleira. Fyrir um þremur árum hafði húsið lokið þáverandi hlutverki sínu þar sem bækurnar og þeir sem þær lesa (eða lestraraðilar eins og það heitir víst í dag) höfðu verið fluttar í Þjóðarbókhlöðuna. Nú voru góð ráð dýr fyrir ríkisstjórnina, því eitthvað varð að gera við húsið. Sumum þótti koma helst til greina að selja húsið fyrst svo var komið að ríkið hafði enga sérstaka þörf fyrir það. Einnig komu fram hugmyndir um að Hæstiréttur yrði í húsinu og þar með hefði mátt komast hjá byggingu nýs húss undir réttinn. Þetta varð þó vitaskuld ekki ofaná, en þess í stað var því fundið hið nýja hlutverk að vera Þjóðmenningarhús. Ekki er víst að öllum sé vel ljóst hvað felst í starfsemi Þjóðmenningarhúss, en ætlunin mun vera að hafa þar sýningar, móttökur eða annað sem mönnum dettur í hug. Hingað til hafa önnur hús dugað fyrir þessa hluti, en með því að taka í notkun þetta endurgerða Þjóðmenningarhús mátti þenja ríkið lítillega út og þá var sá kostur tekinn. 330 milljónir króna fóru í endurbæturnar og einhverjar krónur munu víst líka fara í rekstur hússins.

Degi áður en ríkið opnaði Þjóðmenningarhúsið stóð Reykjavíkurborg fyrir opnun fyrsta áfanga nýs listasafns í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu með glasaglaumi og öðru tilheyrandi. Fyrir rekur borgin fjölda safna og menningarstofnana, en aldrei mun nóg gert á þessu sviði. Þjóðmenningarhúsið var ekki ódýrt, en þó aðeins hálfdrættingur á við það sem áætlað er að fari í hið nýja listasafn. Í listasafnið hyggst borgin eyða 665 milljónum króna af fé skattgreiðenda og er þá ekki talinn með rekstrarkostnaður til eilífðarnóns.

Væntanlega eru framkvæmdirnar tvær sem nefndar eru hér að ofan afar brýnar og líklega hefði allt verið í uppnámi hefði ekki verið ráðist í þær. Eða hvað? Getur verið að enginn slíkur mælikvarði sé lagður á opinberar framkvæmdir. Er hugsanlegt að þeir sem fara með fé skattgreiðenda hafi ekki þungar áhyggjur af því hvort skattgreiðendur greiða einum milljarði króna hærri eða lægri skatta?