Laugardagur 22. apríl 2000

113. tbl. 4. árg.

Margir hafa fengið sig fullsadda af málflutningi sjálfskipaðra umhverfisverndarsinna og raunar ekki aðeins öfgafullum málflutningi þeirra heldur einnig öðrum aðgerðum svo sem óeirðum eins við fundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, skemmdarverkum á tilraunaökrum með erfðabreyttar plöntur, hvalveiðibátum o.frv. Einn þeirra sem er búinn að fá nóg fyrir löngu er verk- og lögfræðingurinn Peter Huber við Manhattan Institute en hann skrifar reglulega fyrir tímaritið Forbes. Á síðasta ári sendi hann frá sér bókina Hard Green – Saving the Environment from the Environmentalists – A Conservative Manifesto þar sem hann hafnar þeim áróðri umhverfisverndarsinna að fæða, eldsneyti, málmar og aðrar náttúruauðlindir muni klárast í bókstaflegri merkingu inna tíðar enda bendir hann á að við séum sífellt að þróa nýjar afurðir sem leysa aðrar af hólmi. Hann hafnar þeim áróðri að við séum að drukkna í sorpi og hann hafnar einnig endurvinnslu á vegum hins opinbera þar sem það hafi ekkert að segja fyrir skóga, ár, vötn og votlendi að við séum að flokka og geyma dagblöð, áldósir eða gler.

Huber heldur því fram að jarðefnaeldsneyti og kjarnorka séu umhverfisvænni orkugjafar en vindmyllur, sólarorkuver, lífmassi eða aðrir svonefndir mjúkir orkugjafar þar sem þeir gangi síður á yfirborðsgæði jarðar. Áburður, skordýraeitur, vaxtarhormón og erfðabætur gera okkur að mati Hubers kleift að breyta gæðum jarðar í dýrmætar hitaeiningar á hagkvæman hátt og því séu þessi hjálpartæki umhverfisvæn. Lífræn ræktun þurfi hins vegar meira land og orku til að ná sömu uppskeru og því sé hún ekki umhverfisvæn í sama mæli. Huber er eins og hann segir sjálfur frekar íhaldsmaður en frjálshyggjumaður og er þeirra skoðunar að einkaaðilar geti ekki leyst öll mál er varða umhverfisvernd. Til dæmis um það nefnir hann ýmis sérstæð landsvæði eins og White Mountains og Yellowstone sem hann segir, eins og von var á frá íhaldsmanni, hafa tilfinningalegt gildi fyrir Bandaríkjamenn og séu hluti af þjóðarvitund þeirra. Bókin fæst hjá Laissez-Faire bókaklúbbnum.