Fimmtudagur 20. apríl 2000

111. tbl. 4. árg.

Yfirvöld í borginni Erie í Pennsylvania fylki í Bandaríkjunum hafa gefið út reglugerð sem takmarkar starfsemi nektardansstaða þar í borg. Í rökstuðningi með reglugerðinni segir m.a.: „…ákveðin ósæmileg og ósiðleg starfsemi sem fram fer í gróðaskyni er ógn við heilsu, öryggi og velferð borgaranna og er niðurlægjandi fyrir konur jafnt sem karla, hvetur til ofbeldis, spillingar, vændis og annarrar alvarlegrar glæpastarfsemi.“ Einn nektardansstaðanna, Kandyland, höfðaði mál til að fá reglugerðinni hnekkt m.a. á þeim forsendum að dansarar væru ekki algerlega naktir. Málið endaði fyrir hæstarétti Bandaríkjanna sem úrskurðaði nýlega borgaryfirvöldum í Erie í vil.

Röksemdir hæstaréttardómaranna voru athyglisverðar. Þannig sagði Sandra Day O’Connor, í áliti þriggja dómara, að þrátt fyrir að nektardans gæti með nokkrum rétti talist njóta verndar tjáningarfrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar þá væru glæpir og aðrar neikvæðar hliðarverkanir slíkrar starfsemi, næg ástæða til að staðfesta reglugerðina. O’Connor bætti svo við að kröfur um að dansarar íklæddust g-strengs nærbuxum eða öðrum léttum klæðnaði myndu líkast til ekki draga úr fyrrnefndum neikvæðum hliðarverkunum svo neinu næmi. Dómararnir Clarence Thomas og Antonin Scalia voru á öðru máli, þó þeir staðfestu einnig reglugerðina. Scalia sagðist efast stórlega um að g-strengs nærbuxur eða annar léttur klæðnaður myndi breyta nokkru um neikvæðar hliðarverkanir nektardansstaða. Scalia bætti reyndar við að reglugerðin væri almenn reglugerð um hegðun sem ekki væri beint sérstaklega að takmörkun tjáningarfrelsis og því væri tilgangur borgarinnar, að viðhalda góðu siðgæði, næg réttlæting fyrir reglugerðinni.

David Souter, einn dómaranna sem skipuðu minnihlutann, benti hinsvegar á að borgin hefði ekki fært fram neinar sannanir fyrir meintum neikvæðum hliðarverkunum og sagði meðal annars að rökstuðningur borgaryfirvalda virtist byggja á tilfinningum og persónubundnum upplifunum. Athuganir sem Daniel Linz, prófessor við Kaliforníuháskóla í Santa Barbara, hefur gert á þeim 10 rannsóknum sem oftast eru notaðar til að réttlæta hömlur á kynlífsiðnað hafa leitt í ljós að flestar rannsóknanna eru meingallaðar. Þær gera ekki grein fyrir samanburðarhópum eða svæðum, taka ekki mið af mismikilli löggæslu eða annarri starfsemi í nágrenni staðanna o.s.frv. Niðurstaða Linz er að þær rannsóknir sem standast fræðilegar kröfur bendi til þess að nektardansstaðir hafi ýmist ekki í för með sér neinar merkjanlegar hliðarverkanir eða þá að hliðarverkanirnar eru jákvæðar.

Í grein sem Jacob Sullum, einn ritstjóra tímaritsins Reason, ritaði um þetta mál segir hann meðal annars: „Í hvert sinn sem við tökum vandlætingu sem þessa fram yfir umburðarlyndi þá töpum við hluta af frelsi okkar. Það eru hliðarverkanir sem við ættum frekar að hafa áhyggjur af.“