Miðvikudagur 19. apríl 2000

110. tbl. 4. árg.

Dr. Hannes H. Gissurarson prófessor ritar grein um Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í DV í fyrradag. Í greininni bendir Hannes á að Alþjóðabankinn hafi í raun virkað sem byggðastofnun heimsins og telur hann bankann hafa hvatt til ógætilegra og óarðbærra fjárfestinga í þriðja heiminum. Hannes er sömuleiðis óánægður með störf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og telur að hann hafi starfað með svipuðum hætti og seðlabankinn hér á landi gerði til skamms tíma og þannig auðveldað óskynsömum valdsmönnum að hlaupast frá afleiðingum verka sinna. Töluverð umræða hefur verið um allan heim um það hvernig og jafnvel hvort þessar stofnanir skuli starfa. Ekki eru allir á sama máli og Hannes um að leggja beri báðar niður en flestir gera sér orðið grein fyrir slæmum afleiðingum afskipta þeirra. Stjórnmálamenn og embættismenn eiga hins vegar erfitt með að hugsa sér að missa þessi tæki og þar með þau áhrif sem þau gefa þeim. Þeim þykir oft óþægilegt að sætta sig við þá tilhugsun að yfirleitt fer betur á að þeir haldi að sér höndum og hafi ekki afskipti af samskiptum og viðskiptum fólks. Hannes bendir einnig á í grein sinni að ekki megi rugla saman alþjóðaviðskiptum og alþjóðastofnunum. Alþjóðaviðskipti séu æskileg og opna beri markaði vestrænna þjóða um leið og þessum alþjóðastofnunum verði lokað.

Í DV í gær var einnig að finna áhugaverðan pistil, en hann var frá G. Pétri Matthíassyni deildarstjóra afnotadeildar Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið hefur upp á síðkastið verið að innheimta afnotagjöld af fyrirtækjum sem hafa útvörp í bílum sínum og um þessa innheimtu segir deildarstjórinn: „Lögin eru þannig að fyrirtækjum ber að greiða af öllum viðtækjum, útvarps- og sjónvarpstækjum.“ G. Pétur er þannig sérstaklega áhugasamur um að farið sé að lögum og allir greiði afnotagjöldin glaðir í bragði. Einn hópur fer þó ekki að lögum og greiðir ekki afnotagjöld, en það eru starfsmenn RÚV, G. Pétur og félagar. Þegar kemur að starfsmönnum víkja lögin og einhver allt önnur sjónarmið ráða ríkjum.