Þriðjudagur 18. apríl 2000

109. tbl. 4. árg.

Að undanförnu hefur maður nokkur ritað greinar í Morgunblaðið og Viðskiptablaðið og gert tilraunir til að útskýra í löngu máli hve margir horfi og hlusti á Ríkisútvarpið. Maðurinn titlar sig yfirmann markaðsdeildar Ríkisútvarpsins. Hvenær ræður Ríkisskattstjóri sér markaðsstjóra? En fangelsismálastofnun?

Yfirvöld í Indianapolis í Bandaríkjunum hafa tekið upp nýstárlega aðferð við leit að fíkniefnum. Í stað þess að leita aðeins á þeim sem rökstuddur grunur beinist að hefur lögreglan í Indianapolis sett upp vegartálma hér og þar og stöðvað alla vegfarendur sem leið eiga hjá. Þessir sömu vegfarendur mega svo sæta leit í bílum sínum sem og líkamsleit. Hugmyndin er semsagt sú að leita hreinlega á öllum þar til einhver finnst með fíkniefni.

Bandarísku mannréttindasamtökin (ACLU) reka nú mál (The City of Indianapolis v. Edmond) á hendur borginni á grundvelli þess að fyrrnefndar aðferðir lögreglunnar stangist á við fjórða viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar. Í viðaukanum segir m.a. að réttur fólks til að vera laust við órökstudda leit, hvort sem er á sinni eigin persónu, húsakynnum, skjölum o.s.frv., skuli ekki brotinn. Ennfremur segir að heimild til leitar megi ekki veita nema fyrir liggi rökstudd ástæða, eiðsvarin eða staðfest, og að heimildin skuli kveða sérstaklega á um hvar skuli leitað og á hverjum.

Áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum (The Seventh U.S. Circuit Court of Appeals) hefur nú hnekkt ákvörðun Indianapolisborgar með tveimur atkvæðum gegn einu. Borgin áfrýjaði hinsvegar til hæstaréttar Bandaríkjana, sem fyrir skömmu ákvað að taka málið til umfjöllunnar.

Niðurstöðu hæstaréttar Bandaríkjanna er beðið með mikilli eftirvæntingu, enda má færa að því rök að falli úrskurður borginni í vil þá njóti einstaklingur sem staddur er utan heimilis ekki verndar fjórða viðaukans. Í þessu sambandi má geta þess að áhrif fjórða viðaukans hafa farið nokkuð dvínandi á þessari öld og til dæmis úrskurðaði hæstiréttur árið 1982 að lögreglu væri heimilt að leita í farartækjum án fenginnar heimildar dómstóla en þó með því skilyrði að rökstuddur grunur lægi fyrir um saknæmt athæfi (United States v. Ross). Á móti má benda á þá einstæðu réttarreglu í Bandaríkjunum að sönnunargögn, sem fengin eru með heimildarlausri leit, má ekki leggja fram fyrir dómi. Þessi regla hefur þó einnig veikst nokkuð á undanförnum þremur áratugum.

Mál ACLU gegn Indianapolisborg er athyglisvert í ljósi þess að á Íslandi hefur lögregla óhikað stundað þá iðju að stöðva hverja þá bifreið sem henni þóknast, krefjast þess að ökumaður stígi inn í lögreglubíl og svari þar spurningum á borð við „hvert ertu að fara?“, „hvaðan ertu að koma?“, „við hvað vinnurðu?“ og margt fleira án nokkurrar ástæðu. Það er ennfremur athyglisvert að íslensk lögregluyfirvöld áforma nú að fjölga eftirlitsmyndavélum sínum og þá um leið tilefnislausum rannsóknum með tilheyrandi skerðingu á friðhelgi einkalífs.