Föstudagur 14. apríl 2000

105. tbl. 4. árg.

Þrátt fyrir að bíleigendur séu lagðir í einelti af þingmönnum með skattaálögum hefur bílum fjölgað úr um 100 í yfir 500 á hverja þúsund íbúa frá 1960 og nú erum við Íslendingar líklega mesta bílaþjóð í heimi en lengi vermdum við þriðja sætið á eftir Bandaríkjamönnum og Þjóðverjum. Sú neyslustýring sem menn telja að oft megi ná fram með háum sköttum virkar ekki á Íslendinga þegar bílar eru annars vegar. Íslendingar fá sér bíl hvað sem tautar og raular og skattheimta hefur í mesta lagi áhrif á það hvernig bíl menn kaupa, stóran eða lítinn, nýjan eða notaðan. En þrátt fyrir að fólk sé greinilega tilbúið til að leggja mikið á sig til að eignast bíl og reka hann eru til menn sem telja sig vita betur um þarfir fólks og finna bílaeign flest til foráttu.

Um þetta er fjallað í leiðara í aprílblaði Vesturbæjarblaðsins sem dreift er í vesturhluta Reykjavíkur og þar segir: „Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, er bifreiðin hentugasta flutningstæki fjölskyldna og einstaklinga þegar um styttri fjarlægðir er að ræða, eins og á höfuðborgarsvæðinu. Íslenskt veðurfar, tímaleysi nútímasamfélagsins, atvinnuhættir og fjölskyldulíf er með þeim hætti í dag, að bíllinn er stór hluti af rekstrarþörf heimilisins. Ríki og borg hafa mætt þessari þörf fjölskyldna með óvenjumiklum fordómum og hörku. Gjöld á bifreiðir eru með þeim hæstu í Evrópu, stöðumælagjöld há í höfuðborginni og óhentug, bifreiðaskattar háir og virðisaukaskattur á allar rekstrarvörur bifreiða (og vörur almennt) hér um bil helmingi of hár.“

Stuðningsmenn aðildar Íslands að ESB benda nú hróðugir á að Íslendingar geti náð 5 milljörðum króna úr styrkjasjóðum sambandsins en að vísu fylgir því sá ókostur að þurfa að leggja 8 milljarða króna á móti til sambandsins. Styrkjakerfi ESB er ætlað að styðja fátækari lönd sambandsins með því að styrkja óarðbæran atvinnurekstur í þessum löndum. Íslendingar yrðu meðal ríkustu þjóða innan sambandsins og allt útlit er fyrir að á næstu árum muni hrúgast inn fátækar suður- og austurevrópu þjóðir sem munu taka til sín aukna styrki á kostnað ríkari þjóða.

Styrkjakerfi ESB er auðvitað ekkert öðruvísi en önnur opinber styrkjakerfi. Fé er tekið úr arðbærum atvinnurekstri og sett í óarðbæran í gegnum pólitískt skömmtunarkerfi þar sem stór hluti fjárins tapast í rekstri kerfisins. Styrkirnir beina því mönnum frá því að framleiða vörur og þjónustu sem þörf er fyrir.