Laugardagur 15. apríl 2000

106. tbl. 4. árg.

Einn af óvæntum kostum þess fyrir Íslendinga að gerast aðili að Evrópusambandinu er að þá þyrftu þýðendur ekki að hafa áhyggjur af atvinnuleysi. Nú starfa 13 þýðendur hjá utanríkisráðuneytinu við að koma hinum ýmsu reglum frá Brussel yfir á íslensku. Ýmsum þykir sjálfsagt nóg um að hafa 13 þýðendur í fullu starfi, en ef Ísland gerðist aðili að ESB þyrfti að minnsta kosti 60 þýðendur í fullt starf við að koma endalausu reglu- og lagaflóði yfir á ástkæru tunguna. En er virkilega hægt að telja það til kosta við aðild að ESB að þýðendum á vegum ríkisins mundi fjölga? Nei, vitaskuld ekki. Eftir því sem hið opinbera fjölgar starfsmönnum sínum – ekki síst við skriffinnsku á borð við þessa – fækkar þeim sem starfa við framleiðslu verðmæta. Verðmæti verða ekki til við að semja eða þýða flóknar reglur heldur verða þau til þar sem einstaklingar eru að störfum í atvinnulífinu. Í stuttu máli má segja að minnsta kosti þrennt um fjölgun skriffinna. Í fyrsta lagi kosta þeir skattgreiðendur fé. Í annan stað þvælast þeir oft fyrir atvinnulífinu og draga þar með þrótt úr því. Og í þriðja lagi eru þeir ekki að vinna að arðbærum verkefnum annars staðar á meðan þeir eru bundnir við skrifborðið á ríkiskontórnum.

Vef-Þjóðviljinn hefur oft varað við því að ríki og sveitarfélög ani út í „umhverfisvæn“ verkefni bara af því að það þykir hljóma vel í umræðunni. Akureyrarbær hefur að undanförnu hvatt bæjarbúa til að flokka sorp frá heimilum sínum en allt sorpið, flokkað sem óflokkað, er svo urðað á sama stað í Glerárdal! Nokkur umræða hefur farið fram um þetta á heimasíðu Akureyrarbæjar og þar kemur fram að flokkun og endurvinnsla stendur ekki undir sér þrátt fyrir niðurgreiðslu bæjarins og því flokka bæjarbúar ruslið án þess að það hafi nokkurn tilgang annan en að sóa tíma þeirra. Bæjarbúar eru því dregnir á asnaeyrunum eins og Baldur Gunnlaugsson skrifar á heimasíðu bæjarfélagsins. Baldur segir einnig: „Uppsetningu nýrrar flokkunarstöðvar var fagnað með kampavíni en enginn hugsaði til enda.“ Því miður er það alltof oft þannig að opinberir aðilar ana út í endurvinnslu án þess að það sé hagkvæmt. Þetta þýðir með öðrum orðum sóun.  Raunar ættu opinberir aðilar ekki að skipta sér af þessum málum. Þegar það verður hagkvæmt að hafa heilu bæjarfélögin í vinnu við það að flokka ákveðið sorp frá heimilum til endurvinnslu munu einkaaðilar bjóða upp á það. Þangað til verður endurvinnsla eins og svo mörg önnur „umhverfisvæn“ verkefni á vegum hins opinbera aðeins innihaldslaust tilefni fyrir pólitíkusa til að skála og komast í fjölmiðla.