Fimmtudagur 13. apríl 2000

104. tbl. 4. árg.

Samgönguráðherra lagði á þriðjudag sitt af mörkum í baráttunni fyrir hærri sköttum. Þá flutti hann á Alþingi tillögu til þingsályktunar um jarðgöng og er óhætt að segja að flest önnur sjónarmið en hagsmunir skattgreiðenda hafi ráðið við tillögugerðina. Langtímaáætlun samgönguráðherra gerir ráð fyrir að í byrjun verði ráðist í gerð tvennra ganga, annarra á norðurlandi og hinna á austurlandi, og er ljóst að hrepparígur ræður því að bæði göngin verða boruð á sama tíma. Samanlagt eiga þessi göng að kosta 8,3 milljarða, eða 1.400 milljónir króna á ári á meðan á framkvæmdum stendur, þ.e. til ársins 2007. Skattgreiðendur fá þó ekki frið að lokinni þessari fyrstu borun, því þá er áætlað að fara í að bora á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar (já, það fannst óborað fjall á Vestfjörðum), milli Eskifjarðar og Norðfjarðar og á milli Héraðs og Vopnafjaðar. Kostnaðaráætlun þessara verkefna liggur ekki fyrir en sjálfsagt verður reynt að slá ekki af og halda að minnsta kosti sömu útgjöldum til að skattar lækki ekki.

Þetta er ekki allt. Í yfirlitsáætlun vegagerðarinnar er greint frá 21 fjalli sem mögulegt er að láta bora í gegnum svo óhætt er að segja að af nógu er að taka. Sum verkefnanna eru að vísu sögð í „mjög fjarlægri framtíð, ef þau þá koma til framkvæmda.“ Reynslan segir þó að það að hefja umræður um slíka hluti endar yfirleitt með framkvæmd og tilheyrandi útgjöldum. Það verður ekki auðvelt fyrir samgönguráðherra eftir 10-15 ár að segja við íbúa einhvers fámenns byggðarlags að þær hugmyndir sem viðraðar voru hafi nú aldrei átt að koma til framkvæmda og aðeins verið til þess settar fram að friða þrýstihópa. Staðreyndin er nefnilega sú að þrýstihóparnir hverfa ekki og þegar fólk sér að hægt er að fá stjórnmálamenn til að láta skattgreiðendur borga fyrir hvað sem er hættir kröfugerðin aldrei.

Þær 1.400 milljónir á ári sem samgönguráðherra vill láta skattgreiðendur greiða í náinni framtíð bætast við hugmyndir sem settar hafa verið fram um 2.500 milljóna króna árleg útgjöld vegna breytinga á reglum um fæðingarorlof. Síðarnefnda hækkunin á að vara um alla eilífð. Skattgreiðendur munu því ef til vill geta þakkað ríkisstjórninni tæplega 4.000 milljóna króna skattahækkun á ári, en það eru um 14.000 krónur á hvert mannsbarn á ári. Þessar hugmyndir og tillögur eru raunar af þeirri stærðargráðu að hugmyndir um nokkra milljarða í ríkistónlistarhús blikna nánast í samanburðinum. Hvern hefði órað fyrir að hægt væri að slá þær hugmyndir svo auðveldlega út?