Þriðjudagur 14. mars 2000

74. tbl. 4. árg.

Hver tók ungan lögfræðing, Lúðvík Bergvinsson að nafni, upp á arma sína, gerði hann í ráðherratíð sinni að yfirlögfræðingi umhverfisráðuneytisins og kom honum svo í framboð til alþingis?
Það var Össur Skarphéðinsson.
Hver er núna að leita allra leiða til að Össur Skarphéðinsson verði ekki sjálfkjörinn leiðtogi Fylkingarinnar?
Það er Lúðvík Bergvinsson.
Hver er núna fúll út í Lúðvík Bergvinsson?
Það er Össur Skarphéðinsson.

Stuðningsmenn byggðakvótans svokallaða halda því fram að flutningur á kvóta úr sumum byggðum landsins skýri flutning fólks í þéttbýli. Með þessum rökum er barist fyrir því að áfram verði deilt út byggðakvóta og hann aukinn. Ef marka má grein eftir Bjarna Hafþór Helgason í nýjasta tölublaði Fiskifrétta á tenging fólksflutninga og flutnings kvóta ekki við rök að styðjast. Bjarni segir að margir þéttbýlisstaðir hafi styrkt kvótastöðu sína og búi við gott atvinnulíf en samt fækki þar fólki. Nefnir hann Vopnafjörð, Norðfjörð og Eskifjörð sem dæmi. Bjarni bendir auk þess á að það sem sé verst við byggðakvótann sé að hann valdi óhagkvæmni í sjávarútvegi og sé auk þess aðeins tilfærsla frá einum þéttbýlisstað á landsbyggðinni til annars, því ekki sé talað um að taka kvóta af höfuðborgarsvæðinu, enda séu þar aðeins um 10% kvótans.