Miðvikudagur 15. mars 2000

75. tbl. 4. árg.

Niðurstöður spænsku kosninganna
Niðurstöður spænsku kosninganna

Helsta erlenda frétt mánudagsins var stórsigur hægri manna í spænsku þingkosningunum um helgina en spænskir jafnaðarmenn guldu hins vegar mesta afhroð í sögu sinni. Hægriflokkur Aznars náði meirihluta á spænska þinginu, eða 183 sætum af 350. Margir söknuðu þess að sjá ekki einhvern af talsmönnum eða leiðtogum Samfylkingar tjá sig um málið í sjónvarpsfréttum eftir kosningarnar. Í hvert sinn sem vinstri flokkar hafa unnið kosningasigur í einhverju stórríki Evrópu á undanförnum árum, hafa talsmenn eða leiðtogar svokallaðra Samfylkingarflokka nefnilega óskað eftir því að fá tekið við sig viðtal um úrslitin í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna og ótrúlega oft hefur verið látið undan þessum óskum. Í þessum óborganlegu viðtölum hafa leiðtogarnir  talað af mikilli ákefð og innlifun um að viðkomandi úrslit séu mikill sigur fyrir alla jafnaðarmenn og þau tákni endalok hægri bylgjunnar í Evrópu en upphaf nýs vinstri tímabils. Þessir álitsgjafar eru gjarnan Sighvatur Björgvinsson eða Margrét Frímannsdóttir en þegar Verkamannaflokkur Blairs sigraði í síðustu þingkosningum í Bretlandi héldu íslenskir vinstri menn sigurhátíð á Rauða ljóninu og DV birti litmynd á baksíðu af Össuri Skarphéðinssyni og Merði Árnasyni með kampavín í glasi.

Orsök þessa fjölmiðlaleiks er sennilega sú að leiðtogar og talsmenn Samfylkingarinnar hafa ekki nógu mikla trú á að þeir fái atkvæði íslenskra kjósenda út á eigin verðleika eða stefnu. Þess í stað reyna þeir að troða sér í sjónvarpsviðtöl og sannfæra kjósendur um að nú sé það komið í tísku í útlöndum að kjósa „nútímalega vinstri flokka“ og því verði Íslendingar að kjósa eins. Annað væri púkó. Fróðlegt hefur verið að fylgjast með því hve fjölmiðlarnir hafa verið ginnkeyptir til að láta nota sig á þennan hátt. Það vekur líka athygli að þrátt fyrir að fjölmiðlarnir séu duglegir að fjalla þannig um sigra evrópskra vinstri flokka, fer minna fyrir slíkri umfjöllun þegar hægri flokkar vinna sigur. Að minnsta kosti tók hvorki Ríkissjónvarpið Stöð 2, íslenska hægrimenn tali í gær eða fyrradag og spurði þá um hvort stórsigur hægri manna á Spáni markaði endalok ný-vinstri bylgju í Evrópu og upphaf nýrrar hægri bylgju enda ekki um það beðið. En þar sem leiðtogar og talsmenn Samfylkingarinnar hafa verið miklu yfirlýsingagjarnari að þessu leyti, væri skemmtilegt sjónvarpsefni að rifja upp gömul ummæli þeirra eftir einhvern vinstri sigurinn og spyrja þá um hvort það megi með sama hætti leggja út af stórsigri spænskra hægri manna.