Mánudagur 13. mars 2000

73. tbl. 4. árg.

José María Aznar
José María Aznar

Spænski hægriflokkurinn Partido Popular vann sigur í þingkosningum í gær undir forystu José María Aznar forsætisráðherra og fékk hreinan meiri hluta á spænska þinginu. Þessi sigur kemur í veg fyrir að Evrópusambandið þurfi að einangra Spán eins og Austurríki en spænskum kjósendum stóð einnig til boða að kjósa kosningabandalag sósíalista og kommúnista. Evrópusambandið hlyti að hafa meðhöndla kommúnista á sama hátt og það tekur á fasistum. Sá er þó munurinn á spænskum kommúnistum og austurískum fasistum að þeir fyrrnefndu gangast fúslega við nafnbótinni kommúnisti en hinir vilja hreint ekki kannast við að vera fasistar og nefna helst Tony Blair sem fyrirmynd sína.

Gefum okkur að stjórnmálaflokkur hafi allt bókhald sitt opið að sögn formanns hans. Gefum okkur að stjórnmálaflokkurinn láti málgagn sitt fara í gjaldþrot og skuldir þess falli á sparifjáreigendur í ríkisbanka einum og viðskiptamenn blaðsins en haldi áfram símanúmeri (55 17500, það svarar enn í dag) gjaldþrota blaðsins fyrir nýtt útgáfufélag. Gefum okkur einnig að stuttu síðar kaupi þessi stjórnmálaflokkur sig til áhrifa í vikublaði með því að láta annað útgáfufélag á vegum flokksins kaupa hlut í útgáfufélagi vikublaðsins. Nýr ritstjóri vikublaðsins segist hafa aflað fjár til hlutafjárkaupanna hjá vinum og ættingjum en síðar kemur í ljós að flokkurinn fjármagnar allt saman. Gefum okkur jafnframt að sumir þingmenn þessa flokks með opna bókhaldið hafi ekki hugmynd um að þessi baktjaldakaup eigi sér stað. Gefum okkur einnig að fyrir landsfund flokksins árið 1995 sé því haldið fram að skuldir hans séu um 30 milljónir króna en eftir endurskoðun að fundi loknum eru þær um 50 milljónir króna. Nokkrir flokksmenn óska árum saman eftir skýringum á þessari skyndilegu skuldaaukningu en fá engin svör önnur en þau að bókhaldið sé opið.

Gefum okkur nú að þetta sé einhver annar flokkur en Alþýðubandalagið sem setti Þjóðviljann í gjaldþrot og keypti Helgarpóstinn stuttu síðar í gegnum útgáfufélagið Tilsjá sem gaf út Vikublaðið sem var málgagn flokksins eftir að Þjóðviljinn lenti á sparifjáreigendum í Landsbankanum og viðskiptamönnum blaðsins. Kaupin voru gerð án vitundar sumra þingmanna flokksins enda bókhaldið opið og Tilsjá algjörlega í eigu Alþýðubandalagsins. Maðurinn sem var leppur í kaupunum sagðist hafa aflað fjár til kaupanna hjá vinum og ættingjum. Gefum okkur að einhver annar flokkur en flokkur Margrétar Frímannsdóttur gefi upp 30 milljónir króna í skuldir en við nánari skoðun vanti aðrar 20 milljónir króna upp á og flokksmenn spyrji hverju þetta sæti en fái þau svör ein að bókhaldið sé opið. Vef-Þjóðviljinn vill leyfa sér að fullyrða að ef þetta væri einhver annar flokkur en þeir sem standa að Samfylkingunni í dag yrðu einhverjir hissa og hneykslaðir. En þegar samfylkingarflokkarnir eiga í hlut þykja mál sem þessi vart tíðindum sæta. En ef til vill ættu fjölmiðlamenn að verða dálítið undrandi þegar forystumenn þessara flokka vanda um fyrir öðrum og bjóðast jafnvel til að setja öðrum lög og reglur sem lúta að fjármálum stjórnmálaflokka.