Helgarsprokið 12. mars 2000

72. tbl. 4. árg.

„Þessari stefnu fylgdi ég eftir í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík í janúar á s.l. ári og náði þar kjöri sem oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík. Tæplega 6200 manns veittu þar þeirri stefnu minni brautargengi en það er svipaður fjöldi og nú eru í aðildarfélögum Samfylkingarinnar og munu velja formann hennar í næsta mánuði.“, segir Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður þegar hún útskýrir hvers vegna hún býður sig ekki fram til formennsku í Samfylkingunni. Það fer nú vart á milli mála hvað Jóhanna er að segja með þessu. Ef reglurnar í formannskjörinu væru þær sömu og í prófkjörinu myndi hún fara fram og vinna Össur Skarphéðinsson með sömu yfirburðum og síðast. Hvað hugsa svonefndir eðalkratar eftir að ljóst er að fyrrverandi Alþýðubandalagsmaðurinn Össur  mun taka við af Margréti Frímannsdóttur formanni Alþýðubandalagsins sem leiðtogi í hinum nýja krataflokki? En ef það er rétt að um 6200 manns séu í aðildarfélögum Samfylkingarinnar, hvað eru félögin mörg? Vinstri menn hafa alla tíð verið afar flinkir við það að stofna ný félög og síðast í gær stofnuðu þeir enn eitt félagið sem „á að marka tímamót í sameiningu vinstri manna“. Þar sem tveir vinstrimenn koma saman verða til þrjú félög, var einhvern tímann sagt.

Fróðlegt var að fylgjast með fregnum af stofnfundi hins nýja félags í gær sem á að vera ungliðahreyfing Samfylkingarinnar en fundurinn var haldinn var í Iðnó. Á fréttamyndum sjónvarpsstöðvanna sást nær eingöngu miðaldra fólk og varla nokkur undir 35 ára aldri ef frá er talinn nýkjörinn formaður samtakanna. Það er spurning hvort fyrsta formanni samtakanna finnist það ekki vandræðalegt að vera kosinn á stofnfundi þar sem svo stór hluti fundarmanna er kominn yfir þau aldursmörk sem aðrar íslenskar ungliðahreyfingar hafa hingað til miðað við. Í flestum flokkum gegna ungliðahreyfingar því hlutverki að vera virkur vettvangur skoðanaskipta unga fólksins í viðkomandi flokki þar sem það getur óhikað rætt margvísleg málefni og nýjar hugmyndir án afskipta eldri flokksmanna eða kjörinna fulltrúa.

Á stofnfundi hreyfingar ungs samfylkingarfólks var hins vegar ekki annað að sjá en þingmenn samfylkingarinnar, flestir grásprengdir og komnir af léttasta skeiði, sætu á fremsta bekk á stofnfundinum og hefðu að öðru leyti verið í aðalhlutverki þar. Þannig lét hver þingmaðurinn á fætur öðrum teyma sig í sjónvarpsviðtal þar sem settar voru fram athugasemdir og jafnvel látin í ljós andstöðu við þær skoðanir sem fram komu á „fundi ungliðanna“. Ungir samfylkingarmenn tala fjálglega um að einn helsti hvati stofnunar ungliðasamtakanna sé sá að tími sé kominn til að veita ungu fólki öflugan valkost við ungliðahreyfingu annarra flokka. Hinir flokkarnir þurfa þó varla mikið að óttast ef umræddur stofnfundur endurspeglar aldurssamsetningu hreyfingarinnar. En hið nýja félag heitir Ungir jafnaðarmenn og mun Samband ungra jafnaðarmanna eðlilega vera aðili að því eftir að það sagði sig úr Grósku samfylkingu félagshyggjufólks án þess að ungar Kvennalistkonur fengju rönd við reist ásamt Verðandi ungum Alþýðubandalagsmönnum, bæði úr ABR, Birtingu, Samtökum herstöðvaandstæðinga og Framsýn en Félag ungra jafnaðarmanna í Reykjavík er líka með þar sem þeir eru ekki á landsvísu enda ungliðahreyfing Þjóðvaka með ítök þar og Nýr vettvangur kemur sterkur inn og þetta tengist allt Æskulýðsfylkingu Alþýðubandalagsins í gegnum Helga Hjörvar og Hrannar Arnarsson og R-listann. Hvað myndi Ágúst Einarsson eiginlega gera ef hann væri ungur í dag?