Skattar eru stærsti útgjaldaliður heimilanna. Þess vegna mætti ætla að formaður Neytendasamtakanna færi varlega í það að krefjast aukinna ríkisútgjalda. Í Morgunblaðinu á miðvikudaginn ritaði Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasamtakanna þó grein þar sem hann sagði: „Vistvæna ævintýrið hefur hvorki skilað bændum né neytendum ávinningum þótt verulegir fjármunir, á annað hundrað milljónir króna, hafi verið settir í átaksverkefnið Áform sem sett var á fót fyrir fimm árum.“ En þrátt fyrir að Jóhannes telji fjáraustur í vistvæna ræktun hafa gefist illa og þrátt fyrir að hann sé formaður neytendasamtaka fann hann einnig rúm fyrir eftirfarandi skoðun í pistli sínum: „Íslenskir bændur sem vilja breyta yfir í lífrænan búskap eiga að fá stuðning til þess frá stjórnvöldum.“
En ef til vill er ekki undarlegt að styrkir til lífrænnar ræktunar hafi litlu skilað þegar það kemur í ljós að hljómsveitin Stuðmenn, sem á liðnu sumri nefndi sig Græna herinn, fékk 1,25 milljónir króna í styrk frá ríkisreknu átaki í framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna landbúnaðarafurða. Ýmsum sem sóttu um styrk til lífrænnar framleiðslu var hafnað og Raunvísindadeild Háskóla Íslands fékk „aðeins“ 800 þúsund króna styrk í sitt verkefni. Styrkurinn til Stuðmanna hefur ef til vill náð að dekka kostnað við fóður ofan í Vilhjálm H. Vilhjálmsson sem er eina lífveran sem vitað er til að Græni herinn hafi gert tilraunir til að rækta á lífrænan hátt. Vilhjálmur fylgdi hljómsveitinni hvert á land sem er í sumar og var fólki talin trú um að hann væri starfsmaður sveitarinnar. En eins og Jóhannes Gunnarsson segir þá hefur þessi ríkisstyrkta vistvæna ræktun engum árangri skilað. Vilhjálmur hefur því aftur verið settur á venjulegt fóður og mun því í dag ef að líkum lætur þykja hæfur til að taka við formennsku í nýjustu útgáfu af samtökum ungra vinstri manna. En svo skemmtilega vill til, að þetta eru einmitt sömu ungu nútímalegu vinstri mennirnir og sáu um áróður fyrir garðyrkjubændur í síðustu þingkosningum.