Miðvikudagur 1. mars 2000

61. tbl. 4. árg.

Í dag á eldsneytisverð að hækka eina ferðina enn. Ástæða hækkunarinnar er sú að samtök olíuframleiðsluríkja, OPEC, halda aftur af framleiðslunni og hefur það valdið mikilli verðhækkun á olíumörkuðum síðasta árið. Þessi ríki hafa áður haldið aftur af framleiðslunni en gefist upp á því um síðir og má reikna með að sú verði einnig raunin nú. Engin leið er þó að spá fyrir um hversu langan tíma það tekur þrátt fyrir að mjög sé á þau þrýst. Samstaða OPEC og verðhækkun á mörkuðum erlendis er þó ekki það sem aðallega heldur uppi eldsneytisverði. Helsta ástæðan fyrir háu eldsneytisverði hér á landi eru óhóflegar opinberar álögur, en meirihluti þess sem menn greiða fyrir bensínlítrann fer beint í ríkissjóð. Það er því hægur vandi að lækka eldsneytisverð hér á landi ef vilji er fyrir hendi hjá ríkinu. Svo er hins vegar ekki, enda útgjaldakröfur miklar og mörg atkvæði sem þarf að huga að.

Sum atkvæðin eru úti á landsbyggðinni og verða ekki ánægð með þingmenn sína nema þeir færi þeim jarðgöng, eða komi jarðgöngum að minnsta kosti inn á óskalistann yfir jarðgöng næstu ára og áratuga. Einhver þessara atkvæða sem huga þarf að eru út um allt land, en þó aðallega í Reykjavík. Þessi atkvæði heimta risavaxið tónlistarhús og verða afar sátt við þann stjórnmálamann sem leggur hornstein eða klippir á borða þess. Loks eru til þau atkvæði sem krefjast yfirbyggðra fótboltavalla, fjölnota íþróttahúsa, innisundlauga og þess háttar leiktækja. Þeir stjórnmálamenn sem útvega slík mannvirki geta víst gert sér vonir um stuðning einhvers íþróttafélagsins, en því miður eru þeir margir hræddir við að fá slík félög upp á móti sér. Fjölmargar kröfur og fjölmörg atkvæði mætti enn nefna, en það sem hér hefur verið nefnt ætti að gefa nokkuð góða hugmynd um ástæður þess að Íslendingar greiða himinhátt verð fyrir bensíndropann og þurfa að sjá á eftir stórum hluta ráðstöfunarteknanna í hvert sinn sem lagt er við bensíndælu. Útgjaldakröfurnar verða ekki skildar frá skattheimtunni. Menn gerðu margt verra en að hugsa um bensínverðið næst þegar þeim dettur í hug að heimta aukin útgjöld af hinu opinbera.

Ný íslensk heimasíða til kynningar á hugmyndum frjálshyggjumanna hefur verið opnuð og er hana að finna á slóðinni www.minimalstate.com. Ritstjóri síðunnar er Ívar Páll Jónsson og samkvæmt upplýsingum á síðunni hefur hún stuðning við lágmarksríkið að leiðarljósi, en með lágmarksríkinu er átt við að ríkið eigi að einskorða starfsemi sína við rekstur dómstóla, lögreglu og hers. Þeir sem að síðunni standa telja að fólk eigi að hafa frelsi til að gera það sem það vill, svo framarlega sem það skaðar ekki aðra. Þessi íslenska heimasíða er óvenjuleg að því leyti að hún er rituð á ensku, enda er henni ætlað að ná augum útlendinga jafnt sem íslendinga. Heimasíðan er ánægjuleg viðbót við heimasíðuflóru heimsins og fagnar Vef-Þjóðviljinn þessari óvæntu samkeppni.

Vef-Þjóðviljinn býður þeim lesendum sínum, sem kjósa að styrkja útgáfuna, að senda slíkar óskir á dulkóðuðu formi með því að smella á hnappinn „Frjálst framlag“ hér til vinstri. Stuðningur lesenda stendur undir kostnaði við útgáfu Vef-Þjóðviljans og kynningu á henni.