Þriðjudagur 29. febrúar 2000

60. tbl. 4. árg.

„Til að mótmæla þessari skyldu minni gagnvart ríkisvaldinu, óhóflegri skattheimtu og heimtingu þeirra á upplýsingum um mína persónulega hagi, sem síðan er birtar öllum almenningi í águst ár hvert, mun ég ekki skila skattframtali í ár. Ég geri mér grein fyrir að mín litla rödd er kraftlaus gegn því ofbeldi sem ríkisvaldið hefur rétt á að beita mig; þvingunum, handtöku og fangelsisvist. Við sjáum hvað setur.“ sagði Björgvin Guðmundsson varaformaður Heimdallar í grein í DV á föstudaginn. Björgvin og félagar hans í Heimdalli hafa einnig gefið til kynna að þeir muni birta myndir af því einkennilega fólki sem hnýsist í þessar persónulegu upplýsingar sem ríkið opinberar á skattstofum um land allt í ágúst ár hvert. Það væri þarft verk.

Pétur Gunnarsson rithöfundur ritaði grein í DV í gær þar sem hann heldur því fram að FBA hafi verið seldur á undirverði. Raunar segir Pétur verðið hafa verið „helmingi of lágt“. Þetta sjónarmið hefur heyrst talsvert að undanförnu en þó aðallega frá sama fólkinu og hélt því fram þegar sala á bönkunum fór fram að aðeins auðmenn gætu keypt þá – væntanlega vegna þess að þeir væru svo dýrir.

Í nýrri handbók frá Reykjavíkurborg má finna langan lista yfir kjörnar nefndir og ráð á vegum borgarinnar. Fyrir utan það hve listinn er langur vekur það einna helst athygli hvað þeir sem fengu flestar útstrikanir í síðustu borgarstjórnarkosningum sitja í mörgum nefndum. Þó hefur borgarstjórn fyrir tilviljun láðst að kjósa Helga Hjörvar og Hrannar B. Arnarsson í eina nefnd þar sem reynsla þeirra gæti nýst þ.e.a.s. í  framtalsnefnd.