Mánudagur 28. febrúar 2000

59. tbl. 4. árg.

Í nýju lagafrumvarpi fjármálaráðherra er gert ráð fyrir að vörugjald af svonefndum tvíorkubifreiðum, þ.e. bifreiðum sem „búnar eru vélum sem nýta metangas eða rafmagn að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu“, skuli vera 120.000 kr. lægra en ella. Hér kveður við nýjan tón í skattlagningu. Verði lagafrumvarið samþykkt verður í fyrsta sinn ákveðið á beita skattkerfinu til að hygla ákveðnum vörutegundum á þeirri forsendu að þær séu umhverfisvænar. Nú má vafalaust færa fyrir því rök að rafmagnsbílar séu umhverfisvænni en bensínbílar. Rafmagnsbílar þurfa þó rafmagn og það kemur væntanlega úr virkjunum á hálendinu. Svonefndir „umhverfisvinir“ hafa haft hátt um það að undanförnu að virkjanir séu ekki umhverfisvænar. Rafmagnsbílum fylgir einnig meiri förgun á rafgeymum en úr öðrum bílum. Til dæmis um það hve erfitt verður að fá „umhverfisvæna“ niðurstöðu með svona skattalegri mismunun má nefna að VW Polo 1.9 dísil bíll eyðir um 4 lítrum á hundrað kílómetra. Þessi sparneytni bíll mun bera full vörugjöld samkvæmt frumvarpi fjármálaráðherra en tvíorkubíll sem eyðir 5 lítrum á hundraðið auk rafmagns eða metangass mun fá 120.00 króna afslátt!

Í frumvarpinu er kveðið á um að ráðherra setji nánari reglur um hvað teljist vera „að verulegu leyti“. Menn treysta sér ekki til að setja þær skilgreiningar í lög enda má búast við að þær verði flóknar og þurfi að taka örum breytingum enda koma nýjar útfærslur á tvíorkuvélum fram. Frumvarp af þessu tagi gengur því þvert á þau sjónarmið að heppilegra sé að fækka undanþágum en fjölga þeim og að vænlegra sé að einfalda skattkerfið en flækja það. Undanþágur sem þessi eru að vísu ágætlega til þess fallnar að treysta starfsöryggi endurskoðenda, en eru ekki til þess fallnar að treysta efnahagslífið. Hafi fjármálaráðherra raunverulegar áhyggjur af mengun frá bifreiðum ætti hann að nýta þann möguleika að lækka skatta á bíla almennt þannig að fólk geti endurnýjað bíla sína. Nýju bílarnir eru mun sparneytnari en þeir gömlu og menga því minna.