Helgarsprokið 27. febrúar 2000

58. tbl. 4. árg.

Kjarnorka
Kjarnorka

Umhverfisráðherrar Norðurlandanna hafa mótmælt kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield. Slys þar gæti valdið verulegu tjóni á hafsvæðinu í kringum Ísland. Þingmenn Vinstri grænna hafa lagt til að sendiherra Íslands í London verði kallaður heim í mótmælaskyni. Þingmenn Vinstri grænna hafa einnig lýst sig andsnúna framkvæmdum ríkisfyrirtækisins Landvirkjunar í almenningum á hálendinu. Ríkisreksturinn, sem þingmenn VG hafa að skurðgoði, virðist því ekki uppfylla væntingar þeirra.

Helstu umhverfisvandamálin í dag eiga það öll sammerkt að þeir sem menga bera ekki kostnaðinn af menguninni. Helsta ástæðan fyrir því að menn geta mengað án þess að vera rukkaðir fyrir sóðaskapinn er að menguninni er beint út á almenninga. Með öðrum orðum er náttúran ekki í einkaeign og getur ekki gengið kaupum og sölum. Ríkisjarðir og aðrir almenningar á landi, hafið og andrúmsloftið eru gleggstu dæmin. Þeir sem vilja draga úr mengun ættu því að einbeita sér að því að skilgreina einkaeignarrétt á þessum almenningum. Kröfur um fleiri þjóðgarða og „sameign þjóðarinnar“ á náttúrunni og auðlindum hennar draga úr líkum á því að þeir sem menga verði látnir greiða fyrir það.

Í vikuritinu Vísbendingu 11. febrúar síðastliðinn birtist grein eftir Ragnar Árnason prófessor um umhverfisverðmæti. Í inngangi greinarinnar segir: „Umhverfið er verðmætt. Það er verðmætt annars vegar vegna þess að það, eða öllu heldur vissir þættir þess, skapa mönnum gleði og ánægju og hins vegar vegna þess að það er skortur á þeim eftirsóknarverðu þáttum umhverfisins sem kalla má umhverfisgæði. Mikilvægt er að átta sig á því að hvað verðmæti snertir er enginn munur á umhverfinu og venjulegum vörum á markaðnum. Munurinn liggur í því að fjölmargir umhverfisþættir eru af ýmsum ástæðum ekki markaðsvara. Þess vegna geta þessir sömu umhverfisþættir ekki haft markaðsverð. Því er rík tilhneiging til þess, að fyrirtæki og einstaklingar nýti þessi gæði ranglega – yfirleitt óhóflega.“

Í greininni segir Ragnar að gildi umhverfisins fyrir mannlegt líf sé oft talið felast í þrennu: Notagildi (user value) en dæmi um það er þegar fyrirtæki og einstaklingar nota vatn og loft beint til framleiðslu eða lífsviðurværis. Valréttargildi (option value) felst í því að fólk hefur ekki bein not af náttúrufyrirbrigðinu en vill að það sé til staðar og afkomendur fái notið þess. Sjaldgæfar dýrategundir hafa því valréttargildi fyrir marga. Tilvistargildi (existence value) er til dæmis sú ánægja sem fólk hefur af því að vita að tígrisdýr og hvalir eru enn á meðal okkar þótt viðkomandi reikni alls ekki með að njóta þeirra beint.

Ragnar rekur svo nokkrar aðferðir sem menn hafa notað til að meta umhverfisverðmæti og segir að með hjálp þeirra megi fara nærri um umhverfiskostnað við framkvæmdir. Það sé því engin ástæða til annars en að við Íslendingar tökum þessar aðferðir upp. En dæmið (af virkjun á hálendinu, hvað annað?) sem Ragnar tekur í grein sinni sýnir engu að síður að um verulega óvissuþætti er að ræða í svona mati enda segir Ragnar í lok greinar sinnar: „Þetta dæmi sýnir svo ekki verður um villst, að við mat á þjóðhagslegu gildi framkvæmda, sem rýra umhverfið til lengri tíma, nægir ekki að horfa til umhverfisverðmæta í dag. Nauðsynlegt er að horfa lengra fram á veginn og þeirrar hækkunar umhverfisvirðis sem flest bendir til að eigi sér stað er fram í sækir.“

Vafalaust geta stjórnvöld stuðst við slíkt mat þegar ákvarðanir eru teknar en eins og við vitum þá blandast hvers kyns sérhagmunir inn í ákvarðanir stjórnmálamanna. Hagmunir stjórnmálamanna sjálfra hafa áhrif. Hagsmunir kjósenda þeirra, byggðasjónarmið, atvinnusjónarmið o.s.frv. Hvað ætli margir þrýstihópar hafi til dæmis beitt sér í Fljótsdalsvirkjunarmálinu? Þegar á allt er litið blasir því við að færa ákvarðanir um ráðstöfun á umhverfisverðmætum út á markaðinn. En til þess þarf ekki aðeins og einkavæða orkufyrirtækin heldur einnig umhverfið sem þau starfa í.