Laugardagur 26. febrúar 2000

57. tbl. 4. árg.

Bjarni Hafþór Helgason ritar grein um byggðakvóta í Fiskifréttir í þessari viku. Hann telur fjarri lagi að byggðakvótinn muni bjarga hinum dreifðu byggðum og er þeirrar skoðunar að aðrar ástæður en kvótaleysi búi að baki fólksflutningum frá sumum smærri stöðum. Máli sínu til stuðnings bendir hann á þá einföldu staðreynd, sem virðist alveg hafa gleymst í byggðakvótaumræðunni, að 90% kvótans er utan höfuðborgarsvæðisins. Kvótinn er því þegar að langmestu leyti í höndum fólks á landsbyggðinni og hugmyndir um að auka byggðakvóta eru því aðeins hugmyndir um að taka kvóta frá einu sjávarplássi og færa öðru. Nema hugmyndirnar gangi út á að taka aðeins af þeim 10% kvótans sem eru í Reykjavík og nágrenni, en það dettur tæpast nokkrum manni í hug.

Aukning byggðakvóta, sem sumir þingmenn hafa nefnt í viðleitni sinni til að kaupa sér kjósendur, yrði því aðeins til að gera þeim byggðum út um landið sem best standa erfitt fyrir. Kvótinn yrði tekinn af þeim fyrirtækjum og plássum út um landið sem hafa staðið sig best og færður til hinna sem hafa staðið sig verr. Slík ráðstöfun mundi því veikja sterkustu byggðirnar á landsbyggðinni. Hvernig getur það þjónað hagsmunum landsbyggðarinnar?

Þegar rætt er um fiskveiðistjórnarkerfið íslenska má aldrei gleyma því að þeir tveir þættir sem öðrum fremur hafa gert það hagkvæmt eru framseljanleiki veiðiheimilda og varanleiki þeirra. Með þessu er átt við að þeir sem stunda útgerð hafa getað keypt eða selt kvóta eftir því sem aðstæður í rekstri hafa krafist og þeir hafa getað reiknað með að kvótinn yrði ekki tekinn af þeim og því hafa þeir getað horft fram í tímann í rekstri sínum. Þegar þessi grundvallaratriði kvótakerfisins eru ekki virt, t.d. með því að taka upp byggðakvóta, dregur úr hagkvæmni kerfisins. Aukning byggðakvótans eykur óhagkvæmnina.