Föstudagur 25. febrúar 2000

56. tbl. 4. árg.

„Sportveiðiblaðið er komið út uppfullt af skemmtilegu efni og glæsilegt útlits“ skrifar hinn virti blaðamaður, Sigurdór Sigurdórsson í Tímann í gær. Svo virðist sem þetta sé afbragðs blað og Sigurdór nefnir það sem líklega mun draga flesta lesendur að blaðinu: „Þess má til gamans geta að í blaðinu er viðtal við Finn Ingólfsson um laxveiðar og fleira.“
Þeir sem fara og kaupa Sportveiðiblaðið verða svo ekki fyrir vonbrigðum. Viðtalið er geysigott enda tekið af hinum virta blaðamanni, Sigurdóri Sigurdórssyni.

Undirskriftarsöfnun hinna svokölluðu Umhverfisvina fær háðuglega útreið í grein eftir þrjá forgöngumenn undirskriftarsöfnunarinnar Varins lands í Morgunblaðinu í gær. Fyrir þá sem ekki muna aftur til ársins 1974 má geta þess að sú undirskriftarsöfnun var til þess gerð að fá vinstri stjórnina sem þá sat við völd ofan af áformum sínum um að segja upp varnarsamningnum við Bandaríkin. Í greininni kemur fram að samanburður forsvarsmanna „umhverfisvinanna“ á þessum tveimur söfnunum er afar misvísandi og stundum beinlínis rangur. Sem dæmi má nefna að þó „umhverfisvinirnir“ telji sig hafa safnað meiru á skömmum tíma en áður hafi þekkst, þá stóð söfnun Varins lands aðeins um helming þess tíma sem hin söfnunin stóð. Þrátt fyrir þetta söfnuðust mun fleiri undirskriftir í söfnun Varins lands. Sé gert ráð fyrir fólksfjölgun og aldursmörkum er ekki fjarri því að tvöfalt fleiri hafi undirritað áskorun Varins lands en „Umhverfisvina“. „Umhverfisvinirnir“ telja sig hafa orðið fyrir mikilli orrahríð og að listar hafi horfið, en í því lentu hinir ekki síður og þurftu reyndar líklega að þola mun harkalegri andspyrnu herstöðvarandstæðinga en hinir frá stuðningsmönnum virkjunar.

Greinarhöfundarnir nefna fleira sem ekki verður rakið hér, en ljóst má vera að miðað við söfnun Varins lands er söfnun „Umhverfisvina“ ekki mikill sigur. Raunar verður hún að teljast töluverður ósigur miðað við þau stóru orð sem þeir hafa látið falla um söfnunina. Nú er það hins vegar ekki jafn ljóst hver skýringin á hinum slæma árangri þeirra er. Þó má varpa því fram til umhugsunar hvort ekki hefði verið árangursríkara að byggja baráttuna á rökum en að höfða nær eingöngu til tilfinninga fólks með tali um „ósnortin víðerni“ og annað í þeim dúr. Ef til vill hefði árangur náðst ef lögð hefði verið áhersla á að ekki mætti fara út í virkjun nema fyrir lægi að hún yrði hagkvæm og að byggðasjónarmið eða önnur ámóta annarleg sjónarmið yrðu hvergi höfð til hliðsjónar.