Fimmtudagur 24. febrúar 2000

55. tbl. 4. árg.

Höfðatalning Íslendinga verður oft til þess að þeir telja sig í fremstu röð þjóða. Eitt sem við erum framarlega í er fjöldi starfsmanna seðlabanka miðað við íbúafjölda. Starfsmenn Seðlabanka Íslands eru 120 talsins samkvæmt upplýsingum af heimasíðu bankans og gerir það 43 á hverja 100.000 íbúa. Ef þetta er borið saman við úttekt The Economist á erlendum seðlabönkum setur það okkur í annað sæti þjóða, en fyrsta sætið vermir Rússland með 62 starfsmenn á 100.000 íbúa. Þessi silfurpeningur er þó ekkert sem við ættum að hreykja okkur af, því mikill kostnaður fylgir þessu starfsmannahaldi. Engin önnur þjóð í samantekt The Economist kemst nálægt okkur og Rússum, en Frakkar og Belgar eru næstir með hátt í 30. Aðrar þjóðir eru yfirleitt með miklu minni umsvif hlutfallslega, eða innan við 10 starfsmenn á hverja 100.000 íbúa. Vilji menn kenna þá öld sem nú er að líða við eitthvað sérstakt er ekki vitlausara að kenna hana við seðlabanka en hvað annað. Í upphafi aldarinnar voru þeir 18 en í lok síðasta árs voru þeir orðnir 173 og í heiminum starfar meira en hálf milljón manna í seðlabönkum (þar af 150.000 í Kína!). Ekki er þó hægt að segja að öldin sé að sama skapi öld verðstöðugleika, svo tæplega er hægt að segja að þessi fjölgun seðlabanka hafi verið sérstök gæfa.

Það væri því athugandi að draga úr starfsemi þessara banka þar til þeir eru orðnir óþarfir og aðrir farnir að sjá um seðlaútgáfu. Þýska ríkisstjórnin er að draga heldur úr starfsemi seðlabankans þar í landi og gerir það með því að fela einkafyrirtæki að sjá um lánamál fyrir sig. Seðlabankinn þýski mótmælir þessu, enda ekki við öðru að búast og líklegt er að hið sama yrði upp á teningnum hér ef breyta ætti starfsemi bankans eða leggja hann niður. Það breytir þó ekki því að líklegt er að það yrði öllum fyrir bestu.

Fyrirspurnarflokkurinn sem stundum kallar sig Samfylkinguna var afar pirraður á Alþingi í fyrradag. Ástæðan er sú að iðnaðar- og viðskiptaráðherra upplýsti að ekki væri byrjað að vinna skýrslu sem Fyrirspurnarflokkurinn hafði gert kröfu um í haust að fá í hendur um stjórnunar- og eignatengsl í atvinnulífinu. Ráðherrann upplýsti jafnframt að ekki væri von á skýrslunni á næstunni því verkið væri umfangsmikið og kostaði 14 milljónir króna. Já, svarið við þessari fyrirspurn kostar 14 milljónir króna! Það hlýtur að verða að setja spurningarmerki við spurningar af þessu tagi á Alþingi. Vissulega verða þingmenn að geta fengið upplýsingar úr ráðuneytum og stofnunum ríkisins, en að hægt sé að panta skýrslu um stjórnunar- og eignatengsl í atvinnulífinu (sem er auðvitað úrelt um leið og hún kemur út) og láta skattgreiðendur borga fyrir hana 14 milljónir króna er orðið nokkuð langt gengið. Hvers vegna greiðir Fyrirspurnarflokkurinn ekki sjálfur fyrir þessa skýrslu? Hann fær jú ríflegt fé frá Alþingi sem m.a. á að fara í að sinna ýmis konar rannsóknarstarfi.