Miðvikudagur 23. febrúar 2000

54. tbl. 4. árg.

Í dag munu nokkrir háskólastúdentar greiða atkvæði í kosningum til Stúdentaráðs Háskóla Íslands (afsakið rektor, í Reykjavík). Í tilefni kosninganna ritaði frambjóðandi Röskvu harða grein gegn skólagjöldum í Morgunblaðið í gær. Þar fer ekki á milli mála að Röskva er á móti því að menn greiði fyrir það nám sem þeir sækjast eftir. Samkvæmt grein frambjóðandans er það ekki aðeins lögbrot að rukka menn um skólagjöld heldur eru það „grundvallarmannréttindi allra Íslendinga“ að aðrir greiði fyrir menntunina en þeir sem hljóta hana. Þetta viðhorf kemur nokkuð spánskt fyrir sjónir þar sem félag frambjóðandans Röskva stýrir einmitt félaginu Stúdentaráði. Eitt frumskilyrða fyrir því að menn fái yfirleitt að hefja nám við Háskóla Íslands er að menn greiði Stúdentaráði félagsgjöld. Nú munu allnokkrir stúdentar ekki sáttir við það að greiða þessu félagi félagsgjöld og telja það vinna gegn hagmunum sínum. Til dæmis með kröfum um aukna skatta á landsmenn. Hvaða orð ætlar frambjóðandinn að velja á það ástand að menn fái ekki að stunda nám við Háskóla Íslands án þess að greiða félagsgjöld til Stúdentaráðs, þegar hann hefur þegar sagt það brot á „grundvallarmannréttindum Íslendinga“ að menn borgi fyrir það sem þeir sækjast eftir í Háskóla Íslands, þ.e. námið sjálft? Er aðeins mannréttindabrot að verða að greiða fyrir það sem maður vill, en ekki fyrir það sem maður vill ekki?

Samfylkingin er sögð vera í kreppu vegna málefnafátæktar en nú hefur Jóhanna Sigurðardóttir ásamt nokkrum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar „um að gerður verði samræmdur neyslustaðall, sem verði leiðbeinandi fyrir stjórnvöld sem viðmiðunargrundvöllur við ýmsar ákvarðanir sem tengjast rétti til bóta eins og í skatta- og almannatryggingalögum, sem og fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögum. Ekki síður á þessi neyslustaðall að vera grundvöllur greiðsluáætlunar og greiðslumats hjá lánastofnunum, og vegna innheimtu vangoldinna opinberra gjalda, eins og skattaskulda og meðlagsgreiðslna.“ Jóhanna segir að hið opinbera sé nú með 5 neyslustaðla í gangi sem sýni misvísandi þarfir fjögurra manna fjölskyldna. „Þetta rugl þarf að leiðrétta,“ segir Jóhanna. „Þessu máli þarf því að fylgja fast eftir. Það verður gert,“ segir Jóhanna einnig. Einmitt það, segir Vef-Þjóðviljinn, og minnir þingmenn á að gleyma ekki að taka kostnaðinn af þeirra eigin athöfnum með þegar hinn eini sanni samræmdi neyslustaðall verður gefinn út og fjögurra manna fjölskyldur í landinu fá loksins að vita hvað það kostar að lifa.