Fimmtudagur 2. mars 2000

62. tbl. 4. árg.

Mikil eftirspurn er nú eftir fólki til vinnu á höfuðborgarsvæðinu. Vinnuveitendur hafa ekki áður lýst yfir jafnmiklum áhuga á að fjölga starfsfólki á þessum árstíma. Það er því tilvalið fyrir hið opinbera að draga saman seglin. Vart er hætta á miklum deilum við starfsmenn ríkis og bæja sem geta gengið í önnur störf og fá í bónus að greiða ekki lengur félagsgjöld til Ögmundar Jónassonar. Ríki og sveitarfélög hikuðu ekki við að búa til alls kyns verkefni í atvinnuskyni þegar verr áraði en stjórnendum þeirra dettur líklega ekki í hug að láta minna fyrir sér fara í góðærinu. Útgjöld ríkis og sveitarfélaga vaxa og vaxa og hafa aldrei verið meiri þótt þau hafi lækkað sem hlutfall að landsframleiðslu í hinum mikla hagvexti undanfarin ár. Og enn er hottað á útgjaldaklárinn með hestamiðstöð, menningarborg, kristnihátíð, nýjum sendiráðum, búvörusamningi, menningarhúsum á landsbyggðinni, margmilljarða tónlistarhúsi í Reykjavík og svo auðvitað nokkrum jarðgöngum. Hvað verður þá eiginlega gert í næsta hallæri þegar hið opinbera telur sig þurfa að auka atvinnu? Hafa stjórnmálamennirnir hugmyndaflug í fleira? Jú líklega, þegar peningar annarra eru til ráðstöfunar eru mönnum víst engin takmörk sett.

Daimler Chrysler bílaframleiðandinn kynnti nýlega nýja útgáfu af fimm manna fólksbílnum Dodge Intrepid. Nýi bíllinn ESX3 er svonefndur blendingur, knúinn dieselvél auk rafmótors sem fær afl sitt frá nýrri gerð af litium rafhlöðu. Gírskipting bílsins er rafeindastýrð sjálfskipting sem hjálpar til við að halda eldsneytisnotkun bílsins niðri. Með aukinni notkun á plasti og áli í stað stáls vegur bílinn aðeins 1020 kg en mætir engu að síður öllum öryggisstöðulum. Í blönduðum akstri er eyðsla bílsins aðeins 3,3 L á 100km! Bíllinn er 7.500 dollurum (um 530.000 Íkr.) dýrari en samskonar bíll með bensínvél en þessi verðmunur hefur minnkað um 80% frá því fyrsta gerð blendingsins var sett á göturnar árið 1996. Eins og sjá má er bíllinn ekki líkur því sem menn eiga venjast af svo sparneytnum bíl heldur þvert á móti líkari glæsivagni og sýnir þá öru þróun sem á sér stað meðal bílaframleiðenda. Þessi þróun hlýtur að valda þeim umhverfisverndarsamtökum áhyggjum sem hafa viðurværi sitt af því spá fyrir um auðlindaþurrð og aukna mengun. Hversu lengi treysta menn þeim sem hrópa úlfur úlfur að ástæðulausu?