Helgarsprokið 20. febrúar 2000

51. tbl. 4. árg.

Viðvarandi fjárlagahalli var helsta viðfangsefni bandarískra stjórnmála fyrir nokkrum árum og virtist útilokað að loka því gati. Nú hafa umræðurnar þar í landi snúist algerlega við. Í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar síðar á þessu ári er eitt helsta deiluefni frambjóðenda hvernig eyða eigi hinum mikla afgangi sem gert er ráð fyrir að verði á fjárlögum á næstu árum. Demókratarnir Al Gore og Bill Bradley ræða aðallega um hvernig ríkið eigi að útdeila þessum fjármunum, m.a. með niðurgreiðslu skulda, en um leið og repúblikanarnir George W. Bush og John McCain ræða þetta skiptast þeir jafnframt á skoðunum um það hversu miklu ríkið eigi að skila aftur til almennings í formi skattalækkana og hvernig það skuli útfært.

Hér á landi hefur einnig orðið sá ánægjulegi viðsnúningur að hallarekstur ríkissjóðs hefur breyst í rekstrarafgang og því er áhugavert fyrir Íslendinga að kynna sér þær röksemdir sem heyrast í umræðunni í Bandaríkjunum nú um stundir. Í nýjasta tölublaði vefritsins IntellectualCapital.com eru þessi mál til umræðu og eru tveir menn fengnir til að segja skoðun sína á því hvernig nota eigi fjárlagaafganginn. Robert Bixby mælir með því að hann verði nýttur til að greiða niður skuldir ríkisins og nefnir m.a. máli sínu til stuðnings að þar sem þjóðin sé að eldast veiti ekki af því svigrúmi sem þetta veitir. Auk þess er hann þeirrar skoðunar að um leið og ríkið dragi úr skuldum sínum aukist sparnaður almennings til hagsbóta fyrir atvinnulífið. Hann telur einnig að minni skuldir muni hjálpa við að halda vöxtum lágum og það þjóni bæði hagsmunum einstaklinga og fyrirtækja. Þessu til viðbótar er Bixby þeirrar skoðunar að um sanngirnismál milli kynslóða sé að ræða, því ekki sé rétt að láta þá sem yngri eru greiða fyrir eyðslu hinna eldri.

Stephen Moore er annarrar skoðunar en Bixby um hvernig rétt sé að verja afgangi fjárlaga og telur ekki hyggilegt að nota hann til að greiða niður skuldir. Hann mótmælir þeirri niðurstöðu talsmanna niðurgreiðslu skuldanna að hún muni þýða lækkun vaxta. Segir hann að áttundi og níundi áratugurinn staðfesti alls ekki þá skoðun og að umfang skuldanna hafa lítil áhrif á vextina. Hann heldur því auk þess fram að vaxtagreiðslur til eigenda skuldabréfa séu með minnst skaðlegu útgjöldum hins opinbera og geti jafnvel komið í veg fyrir aukin útgjöld á öðrum sviðum og séu því í raun til bóta. Auk þessa telur hann að sögulegar staðreyndir styðji alls ekki þá skoðun að skuldir ríkisins hafi hamlandi áhrif á vöxt landsframleiðslunnar, þannig að þau rök standist ekki.

Moore er sammála Bixby um að hugsa eigi um komandi kynslóðir en er ósammála því að skuldir ríkisins séu áhyggjuefni komandi kynslóða. Hann segir að lífeyriskerfið og flókið skattkerfi sem refsi mönnum fyrir sparnað og fjárfestingu sé helsti efnahagsvandi Bandaríkjanna. Fyrrnefnda vandann vill hann leysa með því að nota hluta fjárlagaafgangsins til að breyta lífeyriskerfinu yfir í einstaklingsbundna lífeyrisreikninga. Varðandi síðarnefnda vandann vill Moore lækka jaðarskatta og draga úr refsingu kerfisins gegn þeim sem spara og fjárfesta. Segir hann að þetta muni skila hagkerfinu meiri ábata, og þar með gagnast næstu kynslóðum betur, en að greiða niður skuldir.

Síðasta atriðið sem Moore nefnir, þ.e. að lækkun skatta auki hagvöxt, skiptir miklu máli þegar rætt er um skuldir hins opinbera. Háir skattar og mikil umsvif hins opinbera draga kraft úr atvinnulífinu og minnka þar með vöxt landsframleiðslunnar, þ.e. hagvöxtinn. Þegar hagvöxturinn minnkar aukast skuldir ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu og öfugt þá minnka skuldirnar hlutfallslega þegar hagvöxturinn eykst. Þetta er vitaskuld að öðru óbreyttu, þ.e. að einungis séu greiddir vextir af skuldunum en þær hvorki auknar né greiddar niður. Dæmi um þetta má einmitt sjá hér á landi, en skuldir ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu hafa lækkað hratt síðustu ár, aðallega vegna mikils vaxtar landsframleiðslunnar. Erfitt er að finna betri leið en lækkun skatta til að viðhalda háum hagvexti og þar með að lækka skuldir .