Laugardagur 19. febrúar 2000

50. tbl. 4. árg.

Víðförli heitir fréttabréf Biskupsstofu og í nýjasta tölublaði þess er víða komið við að vanda. M.a. er fjallað um samskipti Alkirkjuráðsins við alræðisstjórnir fyrr og nú en ráðið hefur löngum legið undir ámæli vegna linkindar gagnvart kommúnistastjórnum en verið þeim mun iðnara við að gagnrýna vestrænt markaðshagkerfi. Dr. Konrad Raiser, aðalritari Alkirkjuráðsins, virðist jafnframt vera nokkurs konar farandsendiherra þess og sagt er frá nýlegum heimsóknum hans til Tékklands og Kúbu. Hlaut hann misjafnar móttökur í þessum löndum að því er fram kemur í Víðförla.

Í Tékklandi fékk Raiser heldur betur orð í eyra frá fyrrverandi andófsmönnum, þar á meðal prestum, sem sættu ofsóknum fyrir mótmæli sín gegn alræði og mannréttindabrotum gagnvart tékknesku þjóðinni á valdatíma kommúnista 1948-1989. Andófsmennirnir segja að Alkirkjuráðið hafi brugðist tékkneskum andófsmönnum á valdatíma kommúnista og það hafi engan skilning sýnt á þeim pólitísku ofsóknum, sem þeir urðu fyrir. Þeir segja ráðið aðeins hafa haft áhuga á að auka tengslin við austurblokkina og það varð á kostnað andófsmanna. Raiser tók að nokkru leyti undir orð andófsmannanna og hefur kallað eftir endurmati á störfum og afstöðu ráðsins á tímum kalda stríðsins.

En Raiser var enn við sama heygarðshornið um svipað leyti þegar hann leiddi sendinefnd á vegum Alkirkjuráðsins til Kúbu og hitti þar Fidel Kastro einræðisherra. Þegar Raiser hitti Kastro fór lítið fyrir gagnrýni kirkjuleiðtogans á stjórnarhætti kommúnista en hann notaði aftur á móti tækifærið til að flaðra upp um byltingarleiðtogann. Sagði Raiser að ferð sín væri merki um samstöðu við kirkjur og fólk á Kúbu, sem byggju við afar erfiðar efnahagsaðstæður vegna efnahagsþvingana Bandaríkjastjórnar. Alkirkjuráðið hefur lengi gagnrýnt útflutningsbann Bandaríkjamanna gagnvart Kúbu og sagði Raiser þessar efnahagsþvinganir vera arfleifð kaldastríðsáranna, sem fyrir löngu væri orðin úrelt.

Það er alveg rétt hjá Raiser að viðskiptabannið á Kúbu er löngu úrelt og færa má góð rök fyrir því að það hafi aldrei þjónað tilgangi sínum. Það er hins vegar fráleitt að kenna viðskiptabanninu um fátækt kúbversku þjóðarinnar enda geta íbúarnir verslað óhindrað við flestar aðrar þjóðir heimsins og keypt af þeim þær bandarísku vörur, sem þá vanhagar um. Kúbverjar eru auðvitað ein fátækasta þjóð Ameríku vegna hins miðstýrða efnahagskerfis, sem kúbverski kommúnistaflokkurinn hefur neytt upp á þá sl. 40 ár þótt lítillega hafi verið slakað á klónni að undanförnu. Kastró reynir hins vegar eins og hann getur að kenna Bandaríkjamönnum um hvernig komið er fyrir þjóð sinni. Það er athyglisvert að alþjóðleg samtök eins og Alkirkjuráðið skuli ganga svo langt í þjónkun sinni við kommúnistastjórnina á Kúbu að gleypa áróðurinn hráan frá Kastró og kenna Bandaríkjamönnum um viðvarandi fátækt á Kúbverja. Alkirkjuráðið hefði greinilega ekki síður gott af því að endurmeta afstöðu sína til þeirra kommúnistastjórna, sem enn finnast, en afstöðuna til Austurblokkarinnar á tímum kalda stríðsins.