Sú fjölmiðlahetja sem er hvað orðljótust þessa dagana er Garðar Sverrisson hjá Öryrkjabandalaginu. Ávallt getur sá maður þó treyst því að einhver fjölmiðill gefi honum drjúga stund af tíma fólks fyrir illmælgi sína. Nú síðastliðið föstudagskvöld gaf Róbert Marshall, fréttamaður á Stöð 2, honum færi á að lýsa forsætisráðherra enn á ný sem hinum versta manni. Garðar þessi hefur margoft hreytt ónotum í þá sem ekki fara að hans ýtrustu óskum, s.s. heilbrigðisráðherra og starfsmenn almannatryggingakerfisins. Svo virðist hins vegar sem Garðar sé með Davíð Oddsson á heilanum og sleppir hann hvergi úr tækifæri að hreyta í hann órökstuddum gífuryrðum. Í þetta sinn líkti hann ráðherranum við austurríska öfgamanninn Haider, en sem kunnugt er hefur sá hrósað þjóðernissósíalisma Hitlers og farið ófögrum orðum um innflytjendur í Austurríki. Ástæðan sem Garðar þessi gaf fyrir hinni illgirnislegu samlíkingu var undarleg; sú að forsætisráðherra gerði lítið úr öryrkjum með því að hafa ekki þá sömu trú og hann sjálfur, að stórauka eigi streymi úr sameiginlegum sjóði landsmanna til velferðarkerfisins. Þess má geta að örlátara velferðarkerfi en á Íslandi er vandfundið í heiminum, nema ef vera skyldi á öðrum ofsköttuðum Norðurlöndum. Það er þó ekki aðalatriðið, heldur hitt að Garðari skuli alltaf leyfast að nota fjölmiðla sem vettvang fyrir þráhyggju sína. Það ber hins vegar að athuga að Róbert Marshall fréttamaður er einn af forystumönnum ungra Alþýðubandalagsmanna til fjölda ára og tekur það því sennilega ekki sérstaklega nærri sér þegar ráðherrar í núverandi ríkisstjórn verða fyrir árásum, þótt rökstuðningurinn sé slakur og orðalagið ósæmilegt.Það kom því heldur ekki á óvart að Róbert skyldi endurútvarpa ummælum Garðars á sunnudaginn í hádegisfréttum Bylgjunnar og í kvöldfréttum Stöðvar 2.
En lítum aðeins á fleira sem Garðar þessi hafði fram að færa á föstudagskvöldið,. Hann sagði meðal annars að það mætti ekki færa umræðuna um örorku á Íslandi á flokkspólitískt plan. Sami maður lét hins vegar Öryrkjabandalagið verja milljónum og aftur milljónum króna fyrir síðustu kosningar í auglýsingar gegn stjórnarflokkunum, með stjórnarandstöðuflokkunum. Miðað við eymdina sem hann lýsir sífellt hjá umbjóðendum sínum hefði mátt ætla að allt þetta fé kæmi að betri notum hefði því verið varið í annað en flokkapólitík.
Þá sagði hann að forsætisráðherra kalli öryrkja smælingja og lítillækkaði þá með þeim hætti. Í utandagskrárumræðu um fátækt á Íslandi í síðustu viku sagði forsætisráðherra að það virtist felast í því viss skinhelgi að þeir sem síst stóðu sig í að hlúa að þeim sem verst stóðu á meðan þeir höfðu til þess tækifæri, og vísaði þar til Samfylkingarflokkanna og stjórnarsetu þeirra 1988-1991, töluðu um að smælingjar ættu ekkert skjól í tíð núverandi ríkisstjórnar. Forsætisráðherra vísaði þannig til orða annarra, sem nú þættust bestu vinir þeirra sem bágust hafa kjörin. Garðar snýr því vísvitandi út úr orðum ráðherrans, auk þess sem ekki var sérstaklega verið að ræða um öryrkja í þessu samhengi.
Eins fullyrðir hann í sífellu að forsætisráðherra stundi talnaleiki, vegna þess að ráðherrann útskýri kaupmáttarþróun bóta með prósentum. Þróun kaupmáttar yfir margra ára tímabil verður þó best útskýrð með hlutföllum, enda mismunandi verðlag milli ára. Skýringin á þessum pirringi Garðars kann þó að vera sú að kaupmáttur bóta hefur aukist í tíð núverandi stjórnarflokkar, öfugt við það sem áróður Garðars gengur út á. Kaupmáttur svokallaðra lágmarksbóta almannatrygginga (þ.e. grunnlífeyris, tekjutryggingar, heimilisuppbótar og sérstakrar heimilisuppbótar) jókst t.d. á síðasta kjörtímabili um næstum fimmtung! Kaupmáttur allra bótaflokkana hrundi hins vegar síðast þegar þeir flokkar sem Garðar styður voru saman í stjórn. Það er því skiljanlegt að Garðari mislíki þessar staðreyndir.
Garðar hefur reyndar aldrei fengist til að útskýra almennilega hvað hann á við með ásökunum um talnaleiki, heldur einungis slegið þessu töfraorði fram. Fyrir síðustu kosningar margtuggði hann þessa sömu tuggu. Fram kom að í eitt skiptið, þegar Garðar hafði enn klifað á þessum meinta talnaleik forsætisráðherra, sendi aðstoðarmaður forsætisráðherra honum allt það talnaefni sem forsætisráðherra hafði nokkurn tíma notað í þessu samhengi, frá því Garðar hóf að gagnrýna, og bað Garðar að útskýra hvaða tölur eða talnameðferð hann véfengdi. Nú, tæpu ári síðar, hefur enn ekki borist svar frá Garðari. Er því vart hægt að draga aðra ályktun en að þessar ásakanir Garðars séu enn eitt dæmið um órökstuddar dylgjur.
Reyndar er Garðar ekki á heimavelli í umræðu um talnaleiki. Hann sagði t.a.m. síðastliðið föstudagskvöld að grunnlífeyrir og tekjutrygging almannatryggingu væru innan við 50 þúsundum og á þessu þyrfti fólk að lifa. Aldrei hefur verið nefnt dæmi um nokkurn einstakling sem ekki hefur úr meiru að spila. Flestir hafa greitt til lífeyrissjóða og eiga þar rétt, auk þess sem fólk getur átt kost á heimilisuppbót og sérstakri heimilisuppbót og notið þannig lágmarksbótanna fyrrgreindu úr almannatryggingakerfinu. Að auki eiga margir maka sem hafa tekur, en frá hinu opinbera eru auk þess í boði bíla- og bensínstyrkir og fleiri bætur, til dæmis vegna lyfja- og lækniskostnaðar. Veittar eru húsaleigubætur, á vegum sveitarfélaga er í boði félagsaðstoð, og öryrkjar geta átt rétt á að fá afslátt af fasteignagjöldum, á sundstöðum, í strætisvagna, hjá flugfélögum og í leikhús, svo dæmi séu nefnd. Sérstök kjör eru í boði við endurhæfingu þeirra sem verða fyrir líkamstjóni og veittur er endurhæfingarlífeyrir. Auk þessa þarf að líta til sjúkrasjóða verkalýðsfélaganna, barnabóta, vaxtabóta, atvinnuleysisbóta, mæðralauna, barnalífeyris, barnaörorku, slysadagpeninga, sjúkradagpeninga og fleiri bóta, ef menn ætla ekki að gerast uppvísir að „talnaleikjum“.