Þriðjudagur 8. febrúar 2000

39. tbl. 4. árg.

Frá því var sagt hér í Vef-Þjóðviljanum fyrir nokkru að umhverfisverndarsamtökin Greenpeace hefðu ekki fengist viðurkennd sem góðgerðarsamtök af skattyfirvöldum í Kanada þar sem „samtökin vinni ekki að bættum lífskjörum fólks“. En það fjarar víðar undan hinum ofstopafullu grænfriðungum. Meðlimir samtakanna sjást ekki fyrir í aðgerðum sínum og nýlega eyðilögðu þeir akur í Norfolk í Englandi þar sem tilraunir voru gerðar með erfðabreytt korn. Nú er vissulega ýmislegt óljóst um erfðabreytt matvæli en grænfriðungar réðust einmitt að viðleitni til að afla meiri þekkingar á þeim. Bresku blöðin sem eru að öllu jöfnu fremur handgengin grænfriðungum hafa lýst yfir andúð á þessum skemmdarverkum grænfriðunganna og furðu á því hve andvígir grænfriðungar séu vísindastarfi sem sé þó forsenda þess að hægt sé að meta kosti og galla erfðabreyttra matvæla.

Svonefnd jafnréttismál kynjanna eru orðin blómlegur iðnaður á kostnað skattgreiðenda. Þó er hvergi að finna beina mismunun lengur í lögum gegn öðru kyninu nema hvað fæðingarorlof varðar en þau lög má afnema hvenær sem menn vilja án frekara tilstands. Nú liggur hins vegar fyrir alþingi mikið frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í frumvarpi þessu, sem verður á marga lund afar íþyngjandi fyrir fyrirtæki verði það lögfest, er kveðið á um ótal stofnanir og ráð á vegum hins opinbera sem eiga að hafa eftirlit með lögunum. Skrifstofa jafnréttismála (áður skrifstofa jafnréttisráðs), jafnréttisráð, kærunefnd jafnréttismála, jafnréttisnefndir sveitarfélaga, jafnréttisfulltrúar sveitarstjórna, jafnréttisfulltrúar allra ráðuneyta og jafnréttisráðgjafar félagsmálaráðherra munu koma að þessu máli með fullum þunga á kostnað skattgreiðenda.

En þar með er ekki öll sagan sögð. Í lögunum segir: „Fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn skulu setja sér jafnréttisáætlun eða kveða sérstaklega á um jafnrétti kvenna og karla í starfsmannastefnu sinni.“ Talan er 25. Hvorki meira né minna. Þau fyrirtæki sem hafa 24 starfsmenn verða ekki skikkuð með lögum til að setja sér jafnréttisáætlun. Þau sem eru svo ólánsöm að hafa vaxið yfir þessa stærð verða hins vegar að eyða verulegum tíma og þar með fjármunum í þessa jafnréttisáætlun.