Mánudagur 7. febrúar 2000

38. tbl. 4. árg.

Pétur Blöndal þingmaður og Víglundur Þorsteinsson iðnrekandi tókust á í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi um þær fullyrðingar Péturs að lífeyrissjóðir verkalýðsfélaganna séu ólýðræðislegir. Um það þarf þó vart að deila þar sem verkalýðs- og atvinnurekendur skipta stjórnarsætum þessara sjóða á milli sín en þeir sem greiða í sjóðina, sjóðsfélagarnir, geta ekki mætt á aðalfundi þeirra og boðið sig fram í stjórn. Stór hluti launþega býr við það ofríki verkalýðsfélaga að vera ekki aðeins skyldaður til aðildar að verkalýðsfélagi heldur ræður verkalýðsfélagið því hvernig viðkomandi sparar til efri áranna. Fæstir sjóðirnir standa þó undir nafni sem lífeyrissjóðir heldur eru þeir fyrst og fremst tryggingarfélög sem launþegar eru neyddir til að skipta við.

Greiðslur launþega til sjóðanna eru ekki eign launþeganna heldur fá þeir ákveðna tryggingarvernd fyrir greiðslur sínar. Verkalýðsforingjar eru ekki bestu fáanlegu stjórnendur tryggingarfélaga af þessu tagi og ekkert tryggingarfélag hefur gott af því að fá viðskiptavinina á færibandi eins og lífeyrissjóðir verkalýðsfélaganna. Það er sérstakt álitaefni hvort yfirleitt á að skylda fólk til að kaupa sér tryggingarvernd til efri áranna eins og þá sem lífeyrissjóðir verkalýðsfélaganna bjóða. Hitt ætti ekki að vera álitaefni að ef fólk er skyldað til að kaupa slíkar tryggingar á það að ráða því hvar það kaupir þær. Lífeyrissjóðir verkalýðsfélaganna eiga ekki að hafa einokun á viðskiptum við þá launþega sem vilja kaupa sér tekjutryggingu fyrir ellina.

Ráðstefna um lífeyrismál
Ráðstefna um lífeyrismál

En lífeyrismál eru víðar í deiglunni en hér á landi. Í Bandaríkjunum, Evrópu og Japan sjá menn fram á að árið 2030 verði þriðjungur fólks 65 ára og eldri en það er tvöfalt hærra hlutfall en nú er. Ástæðurnar eru lækkandi fæðingartíðni og lengri meðalævi. Opinber gegnumstreymiskerfi munu því fara á hausinn áður en langt um líður. Cato Institute og The Economist standa fyrir ráðstefnu um þessi mál í næsta mánuði þar sem rætt verður um reynslu nokkurra þjóða af því að einkavæða opinber lífeyriskerfi.