Miðvikudagur 9. febrúar 2000

40. tbl. 4. árg.

Í síðustu viku voru til umræðu á Alþingi tvö þingmál þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Annars vegar var rætt frumvarp Guðmundar Hallvarðssonar og Guðjóns Guðmundssonar um að afnema heimildir til framsals kvóta og hins vegar var rædd þingsályktunartillaga Péturs H. Blöndals um að ríkið taki veiðiheimildirnar af núverandi eigendum þeirra, þ.e. útgerðarmönnunum, og úthluti þeim upp á nýtt á hverju ári. Þessar tillögur eru afar ólíkar en eiga þó sameiginlegt að verði þær samþykktar mun það hafa slæm áhrif á sjávarútveginn og þar með efnahagslífið.

Í þessum umræðum lýsti sjávarútvegsráðherra þeirri skoðun sinni að það sem þyrfti að vera fyrir hendi í góðu fiskveiðistjórnarkerfi væri aðallega tvennt: Frjálst framsal aflaheimilda og varanleiki þeirra. Óhætt er að taka undir að þessir tveir þættir eru mikilvægir fyrir fiskveiðistjórnarkerfi og því vekur sérstaka athygli að fyrrnefnd þingmál vega hvort að sínum þætti. Frumvarp Guðmundar og Guðjóns gengur út á að afnema framsalið og við það dregur mjög úr þeirri hagræðingu sem möguleg er innan kerfisins. Ekki verður sami hvati fyrir hendi að þeir veiði fiskinn sem veitt geta með hagkvæmustum hætti, heldur munu margar útgerðir veiða þó aðrar gætu gert það með minni tilkostnaði. Frumvarpið gengur því út á sóun verðmæta.

Í þingsályktun Péturs er ráðist að hinum helsta þættinum sem prýða má gott fiskveiðistjórnarkerfi, en það er varanleiki úthlutunarinnar. Sé ekki um varanleika að ræða eykst óvissa í kerfinu og þar með kostnaður útgerðarinnar. Menn geta síður gert áætlanir fram í tímann, en einn af kostum núverandi kerfis er að menn geta gengið að því vísu hvaða hlutdeild í heildarafla þeir hafa. Pétur telur að með þeirri aðferð sem hann leggur til sé ekki verið að leggja á aukna skatta, því fjármunirnir renni til landsmanna allra en ekki ríkissjóðs. Þetta er þó aðeins bókhaldslegt atriði svipað því og þegar tekist hefur verið á um hvort telja skuli barnabætur, svo dæmi sé tekið, með í skatttekjum ríkisins. Til skamms tíma var litið svo á í bókhaldi ríkisins að þetta væru ekki skattar og var þetta fært eftir því. Nú hefur uppgjörinu hins vegar verið breytt þannig að bókhald ríkisins gefi rétta mynd af tilfærslum þess á milli manna. Um kvótann yrði að gilda hið sama því sú úthlutun hans sem gert er ráð fyrir í þingsályktunartillögu Péturs er tilfærsla á milli manna í þjóðfélaginu, frá þeim sem nú eiga veiðiheimildirnar til allra landsmanna. Þegar þetta er gert og miðað við þær tölur sem tillöguflytjandi gefur sér í greinargerð með frumvarpinu má gera ráð fyrir að hér væri um ígildi 11-22 milljarða króna skattheimtu að ræða á ári þegar kerfið væri komið á að fullu.

Ríkislögmaður hélt því fram um daginn að Íslendingar yrðu að atlægi á alþjóðavettvangi ef fallist yrði á bótakröfu manns sem sat 9 mánuði saklaus í fangelsi. Í fyrradag gat forsætisráðherra þess að „okkar ástkæra söngkona“ hefði verið svo góð landkynning að hún gæti fengið eyju eina til afnota án endurgjalds en á því hafa ekki aðrir átt kost. Ýmsir telja einnig að kvikmyndagerðarmenn eigi að fá 200 milljónir úr sjóðum ríkisins árlega þar sem verk þeirra séu góð landkynning. Vef-Þjóðviljinn þarf  ekki að hafa áhyggjur af þessum atriðum þar sem hann hefur getið sér gott orð út fyrir landsteinana. Aðrir sem vilja hafa vaðið fyrir neðan sig ættu að fá vottorð frá ferðamálaráði um að þeir séu landi og þjóð til sóma á erlendum vettvangi og eigi því að fá milda afgreiðslu fyrir dómstólum og lipra þjónustu hjá öðrum yfirvöldum.