Þriðjudagur 18. janúar 2000

18. tbl. 4. árg.

Rætt er við Sigurð Líndal lagaprófessor um Vatneyrardóminn svokallaða í nýjasta tölublaði Fiskifrétta. Sigurður tekur í viðtalinu svipaða afstöðu og gert er í helgarsproki hér í Vef-Þjóðviljanum síðastliðinn sunnudag, en ástæða er til að drepa niður í viðtalið, því þar er margt athyglisvert að finna. Um röksemdafærslu héraðsdómarans á Vestfjörðum sem felldi dóminn hefur Sigurður til dæmis þetta að segja: „Mér finnst Héraðsdómur Vestfjarða skauta ansi létt úr 5. greininni í 7. greinina. Hann vísar til hæstaréttardómsins og gefur sér þær forsendur að sömu sjónarmið búi að baki 5. greininni og 7. greininni. Úr því að fyrrnefnda greinin fari í bága við stjórnarskrána hljóti sú síðarnefnda að gera það einnig. Þetta finnst mér æði slakur rökstuðningur af þeirri einföldu ástæðu að aðrar forsendur búa að baki 7. greininni en 5. greininni. Þetta er hreinlega ekki sambærilegt. Úthlutun aflahlutdeildar byggir ekki aðeins á veiðireynslu viðkomandi skipa á árunum 1980-83, heldur var einnig höfð hliðsjón af þróuninni innan sóknarmarksins sem á eftir fylgdi auk ýmissa fleiri leiðréttinga, að ekki sé minnst á kaup og sölu kvóta hin síðari ár.“

Sigurður bendir í lok viðtalsins á að jafnræðisreglan gangi ekki út á að allir eigi rétt á því sama án þess að litið sé til þess hvað þeir hafa lagt á sig. „Áður en fiskveiðistjórnarlögin tóku gildi höfðu allir jafnan rétt til þess að fiska. Þegar að því kom að takmarka þurfti veiðarnar fengu þeir, sem baslað höfðu í atvinnugreininni og hætt fjármunum sínum og ýmist uppskorið gróða eða tap, meiri rétt til fiskveiða en hinir sem ekki höfðu komið nálægt fiskveiðum og engu höfðu kostað til. Þeir voru taldir hafa verðleika umfram aðra. Ég sé ekki neitt misrétti í því. Jafnaðarhugtakið er ekki einfalt. Það er ekki hægt að flagga því eins og tusku framan í þjóðina,“ segir Sigurður.