Mánudagur 17. janúar 2000

17. tbl. 4. árg.

Í síðustu viku varð Francis Bukasa fyrstur manna til að hljóta landvistarleyfi hér sem pólitískur flóttamaður, eða pólitískt hæli eins og það er nefnt. Bukasa er frá Kongó í Afríku (sem reyndar heitir fullu nafni Lýðræðislega lýðveldið Kongó þó það standi nú ekki undir því nafni en hét áður Saír í tæplega þrjá áratugi). Í Kongó er einstakt ræktarland sem dugað gæti til að brauðfæða alla álfuna, gnægð náttúruauðlinda í jörðu, ónýtt vatnsorka og síðast en ekki síst strjálbýli. Landið fullnægir því öllum skilyrðum umhverfisverndarsinna um fyrirheitna landið. Engu að síður er eymdarástand í þessari paradís. Ástæðan er opinber ofstjórn, innanlandsátök og erlend íhlutun í nafni þróunaraðstoðar. Þróunaraðstoðin hefur runnið beint í vasa stjórnmála- og embættismanna sem notuðu féð til að fjárfesta erlendis fyrir sjálfa sig.

Nokkur umræða hefur orðið vegna sölu húss Ríkissjónvarpsins við Laugaveginn. Hún hefur komið upp vegna þess að fasteignasalar vildu fá að selja bæði þetta hús og önnur hús ríkisins og hefur forstjóri Ríkiskaupa tekið undir með þeim en sagt að lögin bjóði að Ríkiskaup selji hús ríkisins. Nú er út af fyrir sig hægt að taka undir að ekki er heppilegt að ríkið sinni fasteignasölu frekar en annarri verslun. Eins má vona að fasteignasalar selji sem mest af eignum ríkisins og skilji sem fæstar eftir í þess höndum. Hins vegar hefur það gleymst í umræðunni um þessa hússölu að heppilegra hefði verið að hún hefði alls ekki farið fram á þeim forsendum sem um ræðir, þ.e. að flytja eigi Ríkissjónvarpið í ofvaxið hús Ríkisútvarpsins við Efstaleiti. Miklu betra væri ef Ríkissjónvarpið hefði verið áfram í því húsnæði sem það hefur verið í og Útvarpshúsið hefði verið selt og starfsemin færð í minna húsnæði. Þá hefði ríkið ekki þurft að bera á annan milljarð króna í kostnað vegna flutninganna og hægt hefði verið að lækka skatta eða auka rekstrarafgang ríkissjóðs.