Helgarsprokið 16. janúar 2000

16. tbl. 4. árg.

Þess er nú beðið að dómarar Hæstaréttar fjalli um mál ákæruvaldsins gegn vestfirska skipstjóranum sem á dögunum fór til sjós og veiddi eins og fiskveiðistjórnarlögin væru ekki til. Telja margir þar fáist loks úr því skorið hvernig dómararnir líti á aflaheimildirnar sem útgerðir landsins hafa stuðst við undanfarinn áratug, hvort þeir líti á þær sem verðmæt fjárréttindi eða stjórnarskrárbrot sem að engu sé hafandi. En þó af umræðu undanfarinna daga megi gjarnan ætla, að aldrei fyrr hafi vafamál tengd þessum aflaheimildum komið til kasta Hæstaréttar, þá er staðreyndin önnur. Raunar hafa aflaheimildir – kvótar – samkvæmt hinum umdeildu fiskveiðistjórnarlögum oft komið til kasta dómstóla. Nefna má dæmi.

Fyrir örfáum vikum dæmdi Hæstiréttur í skaðabótamáli sem fjármögnunarfyrirtæki eitt höfðaði gegn stjórnarmönnum í útgerðarfyrirtæki fyrir vanrækslu þeirra sem hefði valdið stefnandanum – fjármögnunarfyrirtækinu – tjóni. Málavextir voru í sem skemmstu máli þeir, að stefnandinn átti veð í báti fyrirtækis stefndu en þegar báturinn var seldur nauðungarsölu kom á daginn að aflahlutdeild hans hafði verið seld frá bátnum án samþykkis veðhafans. Varð það til þess að veðhafinn fékk mun minna fé upp í kröfu sína en ella hefði orðið. Löggjafinn hefur sem kunnugt er metið veiðiheimildir til verðmætra fjárréttinda og bannað útgerðarmönnum að selja þær frá veðsettum bátum án leyfis veðhafa. Það var þó gert í þessu tilfelli og hafði það tekist vegna mistaka við gerð veðbókarvottorðs. Taldi Hæstiréttur að stjórnarmennirnir hefðu brotið gegn skyldum sínum með þeim gerningi og bæri þeim að standa stefnandanum skil á því fjártjóni sem hann varð fyrir. Voru stjórnarmennirnir því dæmdir til að greiða sjálfir allar eftirstöðvar kröfunnar sem ekki fengust fram við nauðungaruppboðið. Tjónið varð, eins og áður sagði, af því að tiltekin verðmæti – aflahlutdeild – fylgdu ekki með hinu veðsetta. Augljóst má heita, að þann dag sem dómarar Hæstaréttar segja að aflaheimildirnar standist ekki jafnræðisreglu stjórnarskrár, verða þær verðlausar með öllu. Ekkert kom fram um það í þessum dómi Hæstaréttar, – þar sem stjórnarmennirnir voru dæmdir til milljóna króna bótagreiðslna – að svo kynni að fara.

Skaðabótamálið sem hér var minnst á, var að sjálfsögðu einkamál og rekið sem slíkt. Aflaheimildir hafa einnig nýlega komið við sögu í opinberu refsimáli (H 1998:1082) og þar báru dómarar Hæstaréttar ekki brigður á stjórnskipulegt gildi þeirra. Málavextir voru þeir sömu og raktir voru í skaðabótamálinu, en hér var framkvæmdastjóri útgerðarfyrirtækisins saksóttur fyrir nokkrar sakir. Meðal þeirra var sérstakur ákæruliður, þar sem hann var ákærður fyrir skilasvik, þar sem hann hefði selt aflahlutdeildina frá bátnum án samþykkis veðhafans. Hinn ákærði maður benti á það fyrir réttinum, að þegar til veðsins var stofnað var báturinn án aflahlutdeildar og því hefði veðrétturinn ekki náð til þeirra. Héraðsdómur – en Hæstiréttur staðfesti dóm hans og tók undir forsendur hans – leit svo á að veðrétturinn hefði einnig náð yfir aflahlutdeildina eftir að hún var færð á skipið. Var maðurinn sakfelldur og dæmdur til fangelsisvistar fyrir þetta brot sitt og önnur í málinu.

Nú má auðvitað segja, að hér sé manninum einfaldlega refsað fyrir það lögbrot að selja kvóta án heimildar. Það sé bannað í fiskveiðistjórnarlögunum og því hafi maðurinn unnið til refsingar óháð því hvort kvótinn fái staðist eða ekki. Það er rétt, svo langt sem það nær. Hins vegar ber dómurum í refsimáli að líta jafnt til þess sem er sakbornum manni til tekna og þess sem er honum til áfellis og verður að ætla, að ef dómararnir álíta í raun að aflahlutdeildin sé verðlaust stjórnarskrárbrot þá hljóti sá skilningur að eiga að koma fram þegar maður er dæmdur í fangelsi fyrir að skilja hana frá veðsettu verðmæti.

Þeir dómar sem hér hafa verið raktir, sanna ekkert um það hvað dómarar Hæstaréttar ákveða að gera þegar Vatneyrarmálið kemur til þeirra nú í vor. Eru þeir nú undir miklum þrýstingi að „láta ekki undan“ í málinu. Því er markvisst haldið fram að spurningin sé bara hvort þeir „hafi kjark“ til að dæma eins og áhugamenn um breytta sjávarútvegsstefnu vilja. Má á sumum skilja að nú velti úrslit á karlmennsku dómaranna en aðrar réttarheimildir komi þar ekki til álita. Svo er þó reyndar ekki, og er ýmiss að gæta þegar litið er til þess hvernig meta skuli aflahlutdeildarkerfið í ljósi almennra jafnræðisreglna íslensks réttar.

Þó jafnræðisreglan hafi fyrst verið færð í stjórnarskrá sumarið 1995 hafði lengi verið litið svo á að almenn óskráð jafnræðisregla gilti í íslenskum rétti. Var Hæstiréttur og þeirrar skoðunar, sbr. t.d. H 1982:1045 og H 1986:706. Og þegar rætt er um stjórnskipulegt gildi aflaheimilda má minnast þess að Hæstiréttur hefur fjallað sérstaklega um aflaheimildir og í H 1993:2061 dæmir rétturinn, 6 dómarar af 7, að keyptar aflaheimildir séu fémæt réttindi sem skuli teljast til skattskyldra eigna. Og minnihlutinn, Garðar Gíslason, núverandi forseti Hæstaréttar, segir í upphafi atkvæðis síns vera „sammála meiri hluta dómsins um það, að keypt aflahlutdeild skips skuli talin til skattskyldra eignarréttinda …“.

Það er því alveg ljóst að í árslok 1993 voru dómarar Hæstaréttar á einu máli um það að aflaheimildir væru skattskyld eignarréttindi og stönguðust ekki á við hina almennu óskráðu jafnræðisreglu íslensks réttar. Þeir sem nú vilja fá dómarana til að taka annan pól í hæðina verða þá að halda því fram að með stjórnarskrárbreytingunni sumarið 1995 hafi jafnræðisreglan verið færð út. Ekki er þó sennilegt að það sé réttur skilningur á stjórnarskrárbreytingunni. Í greinargerð fyrir henni segir (Alþt. 1993-1994 A 2085) að í tillögunni sé „að finna reglu sem hefur ekki áður verið bundin í stjórnskipunarlög með skýrum hætti. Jafnræðisreglan sem hér er orðuð, hefur þó engu að síður verið álitin ein helsta undirstaðan í íslenskri stjórnskipan og almennt í íslenskum rétti. … Full ástæða þykir til að orða jafnræðisregluna skýrlega meðal annarra mannréttindareglna í stjórnarskránni þótt fram til þessa hafi verið talið nægjanlegt að vísa til hennar sem óskráðrar grundvallarreglu íslenskra laga.“

Ætla verður að það sé harla ólíklegt að höfundar stjórnarskrárfrumvarpsins, stjórnarskrárnefnd undir formennsku Geirs H. Haarde, hafi haft í hyggju að breyta jafnræðisreglunni efnislega frá því sem dómstólar höfðu túlkað hana. Nefndin taldi að auka þyrfti vernd borgaranna gegn mismunun, og þá er átt við að brotið sé á manni vegna kynferðis eða uppruna (t.d. vegna litarháttar), en útilokað er að telja að þingmenn hafi haft þann skilning að þetta frumvarp þeirra rækist á fiskveiðistjórnarkerfið. Enginn þarf að ímynda sér að þingmenn hafi bara allt í einu gleymt þeim lögum. Það hefur verið svolítið sérstakt að fylgjast með umræðum um þær breytingar sem síðasta Alþingi gerði á fiskveiðistjórnarkerfinu eftir Veiðileyfadóm Hæstaréttar árið 1998. Þá hefur því markvisst verið haldið fram að þingmenn vanvirði stjórnarskrána með því að túlka jafnræðisákvæði hennar skakkt. Þær fullyrðingar eru svolítið einkennilegar þegar litið er til þess, að það voru sömu þingmenn sem sömdu þetta jafnræðisákvæði!

Af því sem rakið hefur verið hér, er það niðurstaða Vefþjóðviljans að ekki standi lagarök til þess að dómarar Hæstaréttar ákveði nú í vor að stjórnarskráin banni aflamarkskerfið sem notað hefur verið í sjávarútvegi undanfarin ár. Þvert á móti séu rök til þess að stjórnarskrárgjafinn telji kerfið í góðu samræmi við almenna jafnræðisreglu. Hins vegar séu þeir, sem nú þrýsta á dómarana að beita dómsvaldinu til að ná fram breytingum á sjávarútvegsstefnunni, að freista þess að hefna þess í Hæstarétti sem hallaðist á Alþingi. Þeir séu með öðrum orðum að hvetja dómarana til að láta sér ekki dómsvaldið nægja en taka sér einnig löggjafarvald. Undan þeim þrýstingi mega dómarar ekki láta.